*

Bílar 15. maí 2015

Rolls Royce undirbýr smíði sportjeppa

Lúxusbílaframleiðandinn Rolls Royce ætlar að smíða fjórhjóladrifinn sportjeppa.

Rolls Royce hefur boðað smíði fyrsta fjórhjóladrifna sportjeppa breska lúxusbílaframleiðandans. Bíllinn er kallaður Project Cullinan eftir stærsta demanti sem hefur fundist í heiminum. Hann á að vera búinn öllum þeim lúxus og búnaði sem aðrir eðalbílar framleiðandans eins og Phantom og Ghost eru þekktir fyrir.

Þessi nýi lúxus sportjeppi verður líklega settur til höfuðs öðrum breskum bíl, Range Rover. Rolls Royce sportjeppinn verður með afar aflmikilli V12 vél sem skila á 626 hestöflum og 767 NM í togi sem er ekkert smáræði. Talsvert er þó enn í að jeppinn komi á markað en stefnt er á að hann muni sjást í sölum stóru bílasýningana árið 2019.

Ekkert hefur verið látið uppi um hugsanlegt verð að svö stöddu en líklega verður það þó ekki á færi hins venjulega borgara að kaupa slíkan bíl. 

Stikkorð: Rolls Royce