*

Hitt og þetta 23. febrúar 2014

Rómantík fyrir alla

Ekki gleyma að halda sambandinu lifandi með skemmtilegum uppákomum.

Lára Björg Björnsdóttir

Þó að síðustu vikur skammdegisins liggi nú ofan á þjóðinni eins og gömul og súr tuska er ekki öll von úti í volæðinu.

Það má alltaf hressa lífið við og henda smá rómantík inn í kokteilinn sem er okkar daglega strit. Skoðum nokkur tilvalin rómantísk ráð fyrir alla, hvar sem þeir eru staddir á vegferðinni sem við köllum ást.

Fólk sem er rétt nýbúið að kynnast

 » Sendu snapp af þér að þrífa heimilið hátt og lágt og vertu í fallegum fötum. Sendu síðan annað snapp stuttu síðar þar sem þú segir: „Guð… þetta átti ekki að fara á þig heldur sjálfboðaliðana í Rauða krossinum sem ég hef unnið með síðustu árin.“

» Leigðu hóp af leikurum og láttu þá setjast á næsta borð við „ástina“ þína á kaffihúsi. Þar dásama þeir þig hátt og snjallt og tala um hvað þú sért sæt(ur), vel vaxin(n) og klár. Þeir tala svo um hvað þú sért mikill hugsuður, mannvinur og síðast en ekki síst góð(ur) að raða í uppþvottavél. Láttu þá svo fara út í það hvað það sé lítil virðing borin fyrir röð og reglu í uppþvottavélauppröðun nú til dags í öllu stressinu sem ríkir. Það eru þessir litlu hlutir sem láta fólk fatta hvort það sé til í samband eða ekki.

Fólk sem hefur verið saman í eitt ár eða tvö

» Farðu á margra mánaða píanónámskeið og komdu ástinni þinni síðan á óvart á „sambandsafmælinu“ ykkar. Ef þú færð spurningar á borð við: „Ha, spilar þú á píanó?“ Þá rennir þú fingrunum niður eftir lyklaborðinu, horfir djúpt í augun á viðkomandi og spilar og syngur hástöfum frumsamið verk sem þú titlar: „Við erum ástfangnari en allir í heiminum.“

» Mættu með svín í bandi og segðu að þú sért á móti beikoni og viljir leggja þitt af mörkum með því að ræna svíni og þar með forða fólki frá óhollum mat. Þarna sýnir þú elskunni þinni að þú ert hugsjónamanneskja, fylgin(n) þér og ekki hrædd(ur) við að taka áhættur fyrir málstaðinn. Á svínið má tattúera„ Mér er ekki sama“ ef þú vilt leggja sérstaka áherslu á orð þín.

» Skráðu ykkur á bollakökunámskeið. Þar lærið þið að baka og hnoða og njóta lystisemda sætmetis. Þið getið jafnvel beðið kennarann um að hjálpa ykkur að hanna ykkar eigið „krem“ sem þið munið alla tíð hér eftir kalla „kremið okkar“. Þið farið ekki í jólaboð, skírnir, brúðkaup eða barnaafmæli hér eftir án þess að mæta með bakka fullan af „kreminu okkar“ bollakökum.

Fólk sem er búið að vera saman lengi lengi

» Til að lífga upp á venjulegt mánudagskvöld væri tilvalið að spila eitthvað lag sem var vinsælt þegar þið byrjuðuð saman, alveg óvænt sem dinnermúsík. Var Írafár kannski vinsælt? Þá er ekkert annað í boði en skella laginu „Hringir“ á fóninn. Eldaðu eitthvað vandað innbakað kjöt og komdu gullhring fyrir inni í dýrinu sem þú dregur síðar á fingur elskunnar þinnar.

» Ef þú vilt koma ástinni þinni rækilega á óvart er hægt að fara niður í geymslu og finna gamlar flíkur af henni og ramma inn. Láttu búa til lítinn skjöld sem þú setur neðst á rammann þar sem á stendur hvenær flíkin er keypt og hvar þú sást hann/hana fyrst í henni. Breyttu stofunni í þitt eigið Hard Rock Cafe með þessu. Fátt segir „Ég elska þig“ betur en tískusaga í römmum.

» Notaðu sama ilmvatn/rakspíra og þú notaðir þegar þið kynntust. Ef hætt er að framleiða ilminn má finna þetta á Ebay. Colors frá Benetton, Samba og Adidas ilmvatnið er til í bílförmum á söluvefnum vinsæla. Engar áhyggjur þó að birgðirnar kunni að vera orðnar eitthvað þránaðar, allt fyrir minningarnar og ástina.

Stikkorð: ástin  • Gaman  • Örvænting