*

Bílar 9. janúar 2017

Rúgbrauðið snýr aftur

Volkswagen hyggst setja á markað nýja útgáfu af Rúgbrauðinu frá hippatímanum, en nú verður bíllinn rafknúinn.

Volkswagen hefur lagt fram hönnun á nýju Rúgbrauði í anda þess gamla sem varð eins konar táknmynd fyrir hippatímann. Verður bíllinn rafknúinn og er tilkoma hans hluti af markmiði bílaframleiðandans að ná að selja meira en eina milljón bíla á ári árið 2025 sem ekki gefa frá sér skaðlegan útblástur.

„Við viljum endurnýja ást Bandaríkjamanna á Volkswagen,“ sagði Herberd Diess, framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu, í ræðu í Detroit á sunnudag í tilefni opnunar alþjóðlegrar bílasýningar að því er kemur fram í frétt Bloomberg.

„Við erum staðráðin í að verða hagkvæm og mikilvægur framleiðandi í Bandaríkjunum á næstu tíu árum.“

Volkswagen hefur átt erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum, bæði vegna misráðinna markaðsákvarðanna er varðar framleiðslu á stórum bílum og síðar vegna hneykslismála er varðar svindls á útblástursmælingum sem komu fram í september 2015.

Stikkorð: Volkswagen  • hippatími  • Rúgbrauðið  • rafknúinn