*

Bílar 13. júní 2015

Rúmgóður og fágaður sparibaukur

Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins tók sportjeppan Sorento í reynsluakstur.

Guðjón Guðmundsson

Nýlega var kynnt þriðja kynslóð sportjeppans Sorento, sem er orðinn stærri en um leið umtalsvert léttari en fyrirrennarinn. Sorento er fullvaxinn sportjeppi með rými fyrir allt að sjö manns og eitt stærsta farangursrýmið í sínum flokki. Hann er sagður eyða að meðaltali 6,7 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri með sinni 2,2 lítra dísilvél og sex þrepa sjálfskiptingu. Gott og vel. Við létum á þetta reyna í reynsluakstri á dögunum og niðurstaðan kom skemmtilega á óvart.

Þrjár akstursstillingar

Eyðslutölur sem framleiðendur gefa upp eru fengnar við kjörað- stæður; réttan lofthita, slétta vegi og án mótvinds. Afar ólíklegt er að aðstæður séu allar með þessum hætti hér á landi. Átti undirritaður því von á því að eyðslan yrði nær 8 lítrum en 6,7 lítrum.

Leiðin lá frá miðborg Reykjavíkur norður til Akureyrar. Ekið var í þægindaakstursstillingu en auk þess er hægt að velja um Eco-stillingu, sem eins og nafnið gefur til kynna býður upp á vistvænan akstur með minni eldsneytiseyðslu en í hefðbundinni stillingu. Sportstillingin felur í sér enn meiri snerpu, skiptir sér seinna upp og býður upp á sportlegri akstur inni í borginni með tilheyrandi meiri eldsneytiseyðslu.

Ein vél og ein skipting

Þessi rúmgóði bíll var fullhlaðinn farþegum og farangri í prófuninni. Alls staðar er að finna hólf og hirslur fyrir smáhluti, eins og myndavélar, farsíma og drykkjarföng. Skipulagið er til fyrirmyndar hvað það varðar. Skottið er síðan eitt það stærsta í stærðarflokknum, 660 lítrar, og stækkanlegt í 1.732 lítra. Það gleypti allan farangurinn, sem þó var umtalsverður, og var samt hægt að bæta talsverðu við. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Kia  • Kia Sorento