*

Bílar 25. apríl 2015

Rúmur helmingur staðgreiðir

Fleiri fjármagna nú kaup á nýjum bíl með láni heldur en árið 2011, en flestir staðgreiða þá enn.

Í fyrra voru um það bil 36% nýrra bíla fjármagnaðir með bílaláni eða -samningi. Aftur á móti voru kaup á 64% þeirra fjármögnuð með staðgreiðslu eða öðrum hætti.

Haraldur Ólafsson, forstöðumaður útlánasviðs Ergo bílafjármögnunar, segir þetta gilda um allar tegundir bíla. „Við erum ekki bara að tala um nýjan Toyota Yaris eða Volkswagen Polo, heldur er líka verið að staðgreiða nýjan Land Cruiser eða Land Rover,“ segir hann.

Hlutfall bílalána eykst

Haraldur áætlar að á bilinu 55- 60% bíla séu í dag fjármagnaðir með staðgreiðslu en 40-45% séu fjármagnaðir með láni eða bílasamningi. „Þetta hefur verið að tikka hægt og rólega upp. Sígandi lukka er best og ég held að allir aðilar á markaði séu orðnir sáttari, en betur má ef duga skal,“ bætir hann við.

Sævar Bjarnason, forstöðumaður gíla- og tækjafjármögnunar Arion banka, segist einnig merkja aukna aðsókn að bílafjármögnun. „Við höfum orðið vör við verulega aukningu í ásókn í bílafjármögnun frá fyrra ári. Til að mynda höfum við á fyrstu þremur mánuðum þessa árs séð mikla aukningu í nýjum útlánum vegna kaupa á nýjum og notuðum bílum,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um bíla, en þar er meðal annars að finna samanburð á kjörum við bílafjármögnun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.