*

Hitt og þetta 11. nóvember 2005

Rússneskir forstjórar vilja gull

Rússnesk fyrirtæki hafa ákveðið að verja um það bil 30 milljónum dollara til þess að styðja við rússneska íþróttamenn. Framlögin eru lögð fram í því skyni að efla rússneska íþróttamenn í baráttu þeirra fyrir heims og ólympíutitla.

Fyrir skömmu síðan svöruðu rússneskir forstjórar ákalli forseta landsins, Vladimirs Pútins, og mættu í sérstaka móttöku í forsetahöllinni. Tilefnið var að gera nú tilraun til þess að efla íþróttaanda í landinu á ný og var forstjórunum ætlað að taka upp veskið. Eins og flestum ætti að vera kunnugt hafa Rússar og þó sérstaklega áður Sovétríkin verið sérlega sigursælir á íþróttavellinum. Mikið var lagt undir við mótttökuna fréttamönnum boðið að mæta. Nú skyldi hefja íþróttir aftur til vegs og virðingar í föðurlandinu mikla.

"Við munum allir þau vonbrigði sem áttu sér staða á sumarleikunum í Aþenu," segir viðskiptajöfurinn Vladimir Yevtushenkov, forseti The Sistema Corp., sem er móðurfélag stærsta farsímafélags Rússlands. Í Aþenu urðu Rússar þriðju í röðinni þegar kom að gullverðlaunum og fengu 27 gull og 92 verðlaun í heildina litið. Ennþá virðast Rússar geta státað af nokkurri breidd í sínum íþróttum þó að afburðamönnunum hafi fækkað. Sumum kann að þykja það einkennileg staðreynd að afburðamönnum hafi fækkað við fall kommúnismans! Í Aþenu fengu Bandaríkjamenn flest gull eða 35 talsins og 103 verðlaun alls. Kínverjar voru í öðru sæti með 32 gull og 63 verðlaun alls.

Á tíma Sovétríkjanna voru þau oftast allsráðandi í verðlaunakeppninni en Rússar hafa barist við að halda stöðu þeirra eftir fall Sovétríkjanna. Þrátt fyrir fall járntjaldsins virðist sami metnaður ríkja meðal íþróttaforystunnar þó að fjármagn hafi skort til að standa undir þessum metnaði.

"Ég treysti á að íþróttaunnendur í Rússlandi trúi því að þessum fjármunum sé varið til góðs málsstaðar eða til að aðstoða við uppbyggingu íþróttamála þannig að við Rússar getum aftur státað af fremstu íþróttamönnum í heimi," sagði Pútin nýlega.

Formaður rússnesku ólympíunefndarinnar Leonid Tyagachev sagði að þetta framtak væri "sérlega örvandi" fyrir ólympíunefndina. Framundan eru vetrarólympíuleikarnir í Tórínó á næsta ári og sumarólympíuleikarnir í Bejing árið 2008. Að sögn Tyagachev hafa 705 íþróttamenn taldir líklegir til að keppa á þessum leikum þannig að ljóst er að gríðarlega fjármuni þarf til að standa undir afreksstefnu Rússa.

Vladimir Lisin, stjórnarformaður Novolipetsk Steel, sagði að afrekssjóður Rússlands myndi beita þeirri aðferð að veita greiðslum til þeirra íþróttamanna sem standa sig vel. Einnig fá íþróttamenn mánaðarlega greiðslu sem mun jafngild 150.000 rúblur en það jafngildir 5.200 dollurum. Aðeins þeir sem taldir eru hafa raunhæfa möguleika til að keppa að gulli fá þessa upphæð.

Undanfarin ár hefur rússneska ólympíusambandið greitt bónusa til afreksmanna sinna með aðstoð framlaga frá stórfyrirtækjum. Fyrrum stjarna úr bandarísku íshokkídeildinni Vyacheslav Fetisov, sem nú stýrir rússneska íþrótta- og menningarsambandinu, sagði að nú væri í fyrsta sinn hægt að greiða til íþróttamanna samkvæmt föstu skipulagi og með tryggum greiðslum.

Það er ekkert skrýtið að Pútin skuli standa fyrir þessum umbótum enda er hann þekktur af íþróttaáhuga sínum og keppti sjálfur í júdó á sínum tíma. Auk þess er hann mjög slyngur skíðamaður. Að hluta hefur þessi geta Pútins og ímynd hans sem heilsusamlegur og óspilltur stjórnmálamaður stuðlað að farsæld hans í embætti. Hafa margir undrast vinsældir Pútins meðal rússneskrar alþýðu en það er engin vafi á því að þessir þættir og óslökkvandi áhugi hans á þróttum skipta þar miklu. Samkvæmt upplýsingum frá Kreml kom þó áhugi rússnesku viðskiptajöfranna frá þeim sjálfum en ekki Kreml. Öllum er frjálst að trúa því!

Það vita hins vegar allir að rúsnessku stórfyrirtækin hafa verið undir miklum þrýstingi að skilja eftir eitthvað af fjármunum í innlendu íþróttalífi. Fjáraustur Roman Abramovich í Chelsea dylst engum en fyrirtæki hans Sibneft skrifaði nýlega undir samning við rússneska félagið CSKA.

Ásamt Sistema og Novolipetsk, félögin sem fyrst stofnuðu afrekssjóðinn, hafa félög eins og Sibneft, Lukoil, Surgutneftegaz og TNK-BP látið fé af hendi rakna. Sömuleiðis hefur stálframleiðandadinn Yevrazholding, Russian Aluminum, og Alfa Group, Interros og St. Petersburg bankinn greitt.