*

Menning & listir 19. júní 2013

Rvk. Studios tryggir sér Húsið

Framleiðslufyrirtækið Rvk. Studios hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn á elleftu skáldsögu Stefáns Mána, Húsinu.

Lára Björg Björnsdóttir

„Ég er bara glaður, mér líst vel á þessa stráka og ég er spenntur fyrir þessu,” segir Stefán Máni rithöfundur en framleiðslufyrirtækið Rvk. Studios og Stefán Máni hafa skrifað undir samning um kvikmyndarétt á skáldsögunni Húsið sem Forlagið gaf út á síðastliðnu ári. „Þetta eru góðar fréttir fyrir íslenska menningu og eitthvað sem að fólk hefur áhuga á og bíður spennt eftir,” segir Stefán Máni.

Húsið, sem er ellefta skáldsaga Stefáns Mána, er glæpasaga sem gerist meðal annars í afskekktu húsi sem stendur innst við Kollafjörðinn, en þetta tiltekna hús var Stefáni Mána innblástur við skrif sögunnar.

Sigurjón Kjartansson mun skrifa handritið en hann á að baki verðalaunaðar glæpaseríur fyrir sjónvarp sem notið hafa mikilla vinsælda. Aðalsöguhetja bókarinnar, Hörður Grímsson, hefur komið fyrir í fleiri verkum Stefáns Mána og hefur Rvk. Studios tryggt sér forkaupsrétt á því efni með framhald í huga. Líklegast munu margir hafa sterkar skoðanir þegar kemur að því að ráða í hlutverk Harðar Grímssonar, en enn hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Rvk. Studios er nýtt framleiðslufyrirtæki sem stofnað var í lok síðasta árs af þeim Baltasar Kormáki, Magnúsi Viðari Sigurðssyni og Sigurjóni Kjartanssyni. Fyrirtækið leggur áherslu á leikið efni fyrir sjónvarp og bíó. Rvk. Studios er framleiðandi að nýjum teiknimyndaþáttum Hugleiks Dagssonar sem frumsýndir verða á RUV í haust, en einnig hefur fyrirtækið nýhafið samstarf við CCP um þróun á sjónvarpsþáttaseríu byggða á EVE Online tölvuleiknum. Nú nýlega tilkynnti Rvk. Studios um framleiðslu á sjónvarpsþáttaseríunni Ófærð sem verður stærsta og dýrasta sjónvarpsframleiðsluverkefni á Íslandi, hingað til.