*

Bílar 2. febrúar 2014

S-línan og G-jeppinn bílar ársins

Bestu bílar ársins 2014 koma báðir frá þýska bílaframleiðandum Mercedes-Benz.

Lesendur þýska tímaritsins Auto Motor und Sport völdu Mercedes-Benz S-línuna og hinn goðsagnakennda Mercedes-Benz G-jeppa bestu bíla ársins 2014, hvor í sínum flokki. S-línan fékk viðurkenninguna sem besti lúxusbíllinn og G-línan í jeppaflokki.

Þetta víðlesna bílatímarit hefur um margra ára skeið staðið fyrir vali á bíl ársins. Að þessu sinni tóku 115.285 lesendur þátt í valinu. Hinn nýi Mercedes-Benz S-Class er flaggskip þýska lúxusbílaframleiðandans og er mjög háþróaður og tæknivæddur.

Lúxusbíllinn er með myndavélar og ratsjárskynjara og hvort tveggja skannar veg og akreinar allt umhverfis bílinn í 360 gráður eins og augu og eyru. S-Class veit því þegar aðrir bílar nálgast á of miklum hraða á samsíða akreinum og varar ökumann við yfirvofandi hættu sem því getur fylgt.

Með skynjurum og ratsjá veit S-Class þegar stefnir í aftanákeyrslu og getur með sjálfvirkum hætti beitt bremsubúnaði bílsins og virkjað jafnframt neyðarljósin til að aðvara aðra vegfarendur um yfirvofandi hættu.

Velgengni hins klassíska G-jeppa virðist engan endi ætla að taka. G-línan lagði grunninn að jeppafjölskyldu Mercedes-Benz strax árið 1979. Síðan hefur G-línan tekið stöðugum breytingum og betrumbótum. Núna hefur þessi klassíski unglingur öðlast goðsagnakennda stöðu á meðal jeppaáhugamanna heimsins. Hann hefur stöðugt verið uppfærður með nýjustu hátækni og hágæðabúnaði og innréttingum og hefur þess vegna án vandkvæða varið stöðu sína sem draumajeppinn.

Stikkorð: Mercedes Benz