*

Hitt og þetta 6. febrúar 2016

Sá hlutina í nýju ljósi eftir brunann

Eygló Harðardóttir er meðal þeirra fjölmörgu Íslendinga sem hafa öðlast áhuga á mínimal­ískum lífsstíl.

Áhugi á einföldum lífsstíl – eða því sem kallað hefur verið mínimalismi – hefur aukist stórum hér á landi undanfarin misseri. Í Facebook-hópnum „Áhugafólk um mínimalískan lífsstíl“ eru nú tæplega 10.000 meðlimir og hefur fjöldi meðlima tvöfaldast á aðeins um þremur mánuðum. Í mínimalískum lífsstíl felst að fjarlægja þá hluti og skyldur úr lífi sínu sem veita manni ekki ánægju – að hafa aðeins það sem maður þarf og nýtur þess að hafa. Hugmyndin er að þannig geti einstaklingar aukið lífsgæði sín með því að eiga meiri tíma og peninga sem hægt er að nota með ánægjulegum hætti.

Tíminn með fjölskyldunni ómetanlegur

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, er meðlimur í Facebook-hópnum og hefur skrifað nokkur innlegg þar. Í samtali við Viðskiptablað- ið segir hún að áhugi sinn á mínimalískum lífsstíl hafi aukist mikið að undanförnu. „Í mínum huga felst það í því að velta meira fyrir sér hvað það er sem skiptir mann raunverulega máli,“ segir Eygló.

Hún segir að verulegt tjón hafi orðið í bruna sem hún og fjölskyldan lenti í í október 2014. „Þá gerði maður sér grein fyrir því, þegar við sátum þarna eftir brunann með nokkra poka í kringum okkur og ekkert húsnæði, að þetta var það sem skipti mestu máli – það var maðurinn minn, börnin mín og kötturinn.“

Tjónið af völdum brunans var metið 70 prósent og segir Eygló að bruninn hafi veitt tilefni til að íhuga hvað fjölskyldan þyrfti og hvað það væri sem skipti mestu máli. „Maður gerði sér svo vel grein fyrir því að það er hægt að kaupa nýjan sófa, en tíminn sem maður eyðir með fjölskyldunni er eitthvað sem er ómetanlegt,“ segir hún

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Harðardóttir  • Eygló