*

Bílar 1. nóvember 2017

Sá kraftmesti frá Kia að koma

Á laugardag verður frumsýndur Kia Stinger, kraftmikill fjögurra dyra fjórhjóladrifinn sportbíll hjá Öskju.

Kia Stinger er fjögurra dyra, kraftmikill, fjórhjóladrifinn sportbíll og með honum setur Kia ný viðmið í hönnunar- og framleiðslusögu fyrirtækisins. Hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu eftir bílnum en þessi nýi og spennandi grand tourismo bíll verður frumsýndur hér á landi næstkomandi laugardag.

Bíllinn var kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Frankfurt árið 2011 og vakti þá gríðarlega mikla athygli. Kia tók þá næsta skref og frumsýndi hann fullmótaðan á bílasýningunni í Detroit í vor og nú er hann kominn með miklum tilþrifum til Evrópu, en Ísland er eitt fyrsta landið til að frumsýna bílinn.

Kia Stinger er mjög aflmikill og hraðskreiðasti bíll sem Kia hefur nokkru sinni framleitt. Í GT útfærslunni er 3,3 lítra bensínvél með tvöfaldri forþjöppu sem skilar 370 hestöflum og togið er 510 Nm. Kia Stinger GT er aðeins 4,9 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.

Hámarkshraði bílsins er 269 km/klst. Bíllinn er búinn öllum nýjustu aksturs- og öryggiskerfum frá Kia. Bíllinn er einnig í boði með 2,2 lítra dísilvél sem skilar 200 hestöflum og fer þá á 7,6 sekúndum úr kyrrstöðu í hundraðið.

Kia hefur einnig lagt mikinn metnað í að gera aksturseiginleika bílsins sem allra besta og er hann búinn fullkomnu MacPherson fjöðrunarkerfi að framan og aftan sem og Brembo diskahemlum.

Hann er þá með fullkomna 8 gíra sjálfskiptingu og fimm akstursstillingum sem hægt er að velja um til að gera aksturinn enn betri. Stinger verður frumsýndur hjá Bílaumboðinu Öskju nk. laugardag kl. 12-16.

Stikkorð: bílaumboð  • Askja  • Kia Stinger