*

Bílar 19. ágúst 2015

Sá nýjasti frá Alfa Romeo

Nýr Giulia Quadrifoglio frá Alfa Romeo verður frumsýndur í Frankfurt í næsta mánuði.

Róbert Róbertsson

Alfa Romeo hefur ávallt haft orð á sér fyrir að framleiða fallega bíla sem eru sportlegir í akstri og yfirleitt með mikið afl undir vélarhlífinni. Vandi framleiðandans hefur hins vegar verið allhá bilanatíðni á þessum fögru ítölsku fákum.

Nú kemur Alfa Romeo fram með hinn fagurlega hannaða Giulia Quadrifoglio. Þessi fjögurra dyra bíll er með 503 hestafla V6 vél sem skilar bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,9 sekúndum. Vélin er sögð vera undir áhrifum frá Ferrari. 

Bíllinn er sportlega hannaður með fjögur púströr að aftan og línurnar eru ekta Alfa Romeo. Bíllinn er með keramik bremsur og verður vel búinn ýmsum spennandi búnaði. Stefnt er að því að Giulia verði í boði með fleiri vélum og þá aflminni sem yrðu þá einnig ódýrari.

Bíllinn verður frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt um miðjan september. 

Stikkorð: Alfa Romeo