*

Menning & listir 20. júní 2014

Sækir um öll störf á Íslandi

Breski listamaðurinn Peter Liversidge ræddi við Viðskiptablaðið um nýja sýningu sína í gallerí i8.

Kári Finnsson

Breski listamaðurinn Peter Liversidge opnaði nýverið sýninguna C-O-N-T-I-N-U-A-T-I-O-N í gallerí i8 en sýningin er unnin upp úr 24 tillögum að verkum sem ýmist verða að veruleika á sýningunni eða ekki. Hér á eftir er fyrsti hluti af þremur í viðtali Viðskiptablaðsins við listamanninn. Hér er seinni hluti viðtalsins.

Það virðist sem svo að þú hafir skrifað þessar tillögur um nokkurt skeið.

Ætli ég hafi ekki byrjað á því í október árið 1997. Það var vegna þess að ég hafði ætlað mér að sýna eitthvað tiltekið verk og ég gat ekki sýnt það út af einhverri ástæðu. Þá fór ég að velta fyrir mér hugmyndinni um verk sem væri ekki efnislega á sýningunni en gæti verið hluti af henni engu að síður og gæti þess vegna bara verið lýsing á þessu verki. Tillögurnar sem ég er með á þessari sýningu eru að forminu til alveg nákvæmlega eins og á þessum fyrstu sýningum. Alveg frá upphafi hef ég skrifað tillögurnar hvar sem ég er staddur hverju sinni á ferðaritvél. Það var að einhverju leyti vegna þess að ég hafði ekki efni á fartölvu. Þær voru stórar og klunnalegar á þessum tíma og ég hafði engan pening.

Tillögurnar byrjuðu á þessum tíma, þar sem ég var að hugleiða óefniskennd fyrirbæri og það að hafa ekki efnislega tilvist skúlptúrs eða einhvers verks og hvernig það breytir afstöðu þinni gagnvart því verki. Þ.e. að horfa ekki í raun og veru á verkið heldur að hugsa um það og hvernig það verk verður persónulegt í huga þess sem les tillöguna. Í tillögunni þar sem ég legg til reglur fyrir Ísland - ef þú hefur ekki séð reglurnar, þá hugsar þú væntanlega - hvaða reglur gætu þetta verið?

I propose to write a set of rules for Iceland

Að sama skapi getur þú sagt: þetta vekur engan áhuga hjá mér og ég ætla ekkert að hugsa um þetta frekar. Þannig að tillögurnar spila aðeins með hið tilviljanakennda en þær fjalla líka um breytingar og hvernig þær eru einstakar fyrir hvert og eitt okkar. Frá upphafi fór ég líka að gera bækur í kringum þessar tillögur, þannig að í hvert skipti sem ég var með sýningu, þá notaði ég eins mikla peninga og ég hafði eftir að ég hafði greitt fyrir leigu og mat til að prenta nokkrar bækur.

Hefur þú alltaf haft sama fyrirkomulagið á sýningum þínum? Þ.e. að þú skrifar tillögur og sumar þeirra verða að efnislegum verkum og aðrar verða það ekki.

Já, þetta hefur alltaf verið með þessu sniði.

Ég frétti að þú hefðir verið með fjölmargar tillögur fyrir þessa sýningu og að þú hafir þurft að ritstýra þeim töluvert.

Það gerðist að mörgu leyti af sjálfu sér. Ég er með 24 tillögur fyrir þessa sýningu en ég hefði auðveldlega getað verið með sjötíu eða áttatíu tillögur. Ég vildi hafa þetta svolítið þröngt val en að sama skapi vildi ég hafa sýninguna nokkuð opna.

Tökum verkið um reglurnar sem dæmi. Þær virka sem eins konar spegill. Spegill staðsetur þig innan veggja gallerísins og veitir tiltölulega sanna endurspeglun af þér í ákveðnu rými innan verkanna. Reglurnar bjóða upp á svipaða upplifun, en þær fá þig til að hugsa um umhverfi Íslands. Þær eru settar í íslenskt samhengi en þær eru allt frá því að fjalla um að klæða sig eins og munkur, að þrífa sig reglulega o.s.frv. Alls konar reglur sem virka frekar handahófskenndar en þegar þær eru allar settir í þetta samhengi þá er eins og þær myndi eins konar portrett af stýringu á tilteknum stað. En þegar þær eru svona sundurleitar, þá áttar þú þig á því að það er samhengið sem veitir reglunum vald sitt, ekki það sem reglurnar hafa að segja. Þetta er í raun útmælt svar við umhverfi.

Segjum sem svo að þú sért að ganga við höfnina. Þú veist t.d. að þú átt ekki að ganga við hafnarbrúnina, þú átt ekki að gefa mávunum að borða o.s.frv. Það sama gildir þegar þú ert á tónleikum. Þú veist að þú átt að slökkva á símanum þínum og það er mjög vandræðalegt ef þú gerir það ekki.

Það er áhugavert að þú segir að reglurnar hafa þennan eiginleika að þær geta staðsett þig á ákveðnu svæði. Sumar þessar tillögur verða að fullunnum verkum innan veggja gallerísins eða utan þeirra á meðan aðrar þeirra verða það ekki. Lítur þú á sumar tillögurnar sem árangursríkar tillögur og aðrar sem misheppnaðar?

Þetta er reyndar mjög góð spurning vegna þess að fyrir mér, jafnvel þótt verkin eru ekki efnislega á staðnum, þá þýðir það ekki að þau séu ekki til. Tökum aftur reglurnar sem dæmi, það er greinilega tillaga og það er líka verk sem er til staðar en það er alls ekkert mikilvægara en tillaga mín um að sækja um öll störf á Íslandi sem er líka til. Ég er nefnilega í alvörunni að sækja um hvert einasta starf á Íslandi. Ég mun senda staðlað bréf þar sem ég segi að ég er að sækja um tiltekið starf og segi hvað það er sem ég get ekki gert - eins og t.d. að tala íslensku.

I propose to apply for every job advertised in Reykjavik in June, July and August 2014.

Þú gætir endað á því að fá draumastarfið þitt á Íslandi.

Það er reyndar satt. Ég hafði ekki hugsað út í það. Kannski að ég flytji hingað á endanum með konuna og strákana mína tvo (hlær).

Sýningin C-O-N-T-I-N-U-A-T-I-O-N eftir Peter Liversidge stendur til 9. ágúst í i8 gallerí.