*

Bílar 20. janúar 2016

Sænskur ofurbíll uppseldur

Hinn sænski Koenigsegg Agera RS hefur nú selst upp - enda aðeins til í 25 eintökum.

Koenigsegg Agera RS var framleiddur í aðeins 25 eintökum og nú hafa allir bílarnir selst á skömmum tíma eftir að hann kom á markað. Ofursportbíllinn sænski var ekki á neinu útsöluverði en hvert eintak kostaði um 260 milljónir íslenskra króna. Það virðist þó ekki hafa hamlað vinsældum hans enda uppseldur eins og áður segir. 

Þessi magnaði bíll er hugarsmíði hins þýskættaða Svía, Christian von Koenigsegg, eins og aðrir ofursportbílar frá þessum ofursportbílaframleiðanda. Og ekki er hægt að segja annað en að Koenigsegg Agera RS sé með krafta í kögglum. Undir húddinu leynist gríðarlega aflmikil 5 lítra V8 vél sem skilar alls 1.160 hestöflum.

Koenigsegg Agera RS er aðeins 2,8 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Athygliverðara er þó að að hann er aðeins 20 sekúndur í 400 km hraða og hámarkshraðinn er 440 km/klst.

Koenigsegg Agera RS hefur fangað huga bílaáhugamanna um allan heim þótt einungis 25 hafi getað keypt hann og þeir hafa þá þurft að hafa fé á milli handanna. Kaupendur bílasins koma víða að m.a. frá Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Japan, Kína, Taiwan, Singapore, Malasíu, Saudi-Arabíu, Quatar og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. 

Stikkorð: Svíþjóð  • Bílar  • Koenigsegg  • Ofurbílar