*

Bílar 5. febrúar 2019

Sænskur sigurvegari

Volvo V60 kom sá og sigraði þegar hann var valinn Bíll ársins hjá Bandalagi íslenskra bílablaðamanna sl. haust.

Róbert Róbertsson

Volvo V60 kom sá og sigraði þegar hann var valinn Bíll ársins hjá Bandalagi íslenskra bílablaðamanna sl. haust. Þessi kraftmikli skutbíll hefur margt til brunns að bera eins og glögglega kom fram í reynsluakstrinum m.a. mjög góða aksturseiginleika, fallega hönnun og mikið rými.

Hönnunarlínan í nýjustu bílum Volvo hefur slegið í gegn og ekkert skrítið enda er hún afar vel heppnuð. Framhliðin á V60 gefur fögur fyrirheit með LED framljós sem gefa bílnum sterkt auðkenni. T-laga ljósið er lykilpartur í nýjustu hönnun Volvo. Tónaðar hliðarnar leggja áherslu á sportlegan karakter bílsins og sterkbyggð afturhliðin lúkkar líka vel með sínum mjóu og háu afturljósum.

Ekta sænsk hönnun

Innanrýmið er ekta sænsk hönnun úr smiðju Volvo. Einfaldleikinn er þar í fyrirrúmi en á sama tíma er klassi yfir þessu hjá Svíunum. Einn af hápunktunum er stór 13,2 tommu snertiskjár fyrir miðju með einkennandi lóðréttum lofttúðuræmum með málmramma. Margir af möguleikunum sem eru í boði í V60 er stýrt með snertiskjánum. Það tekur smá tíma að ná þessu en með tímanum er þetta líklega að morgue leyti til bóta. Þeta er alla vega kúl hvað varðar hönnunina. Efnisvalið í innarýminu auka síðan tilfinninguna um nútíma sænskan lúxus.

Í hundrað á 7,8 sekúndum

Volvo V60 er í boði með dísil- og bensínvélum. Reynsluakstursbíllinn er með tveggja lítra dísilvél með forþjöppu sem skilar 190 hestöflum og togið er 400 Nm. Þetta er fínasta afl fyrir skutbílinn og kemur honum úr kyrrstöðu í hundraðið á 7,8 sekúndur. Hámarkshraðinn er 210 km/klst.

Eyðslan er frá 4,6 lítrum á hundraðið samkævmt blönduðum akstri og tölum frá framleiðanda þótt hann eyði aðeins meiru í raunkeyrslu. CO2 losunin er 122 g/km. Von er síðan á T8 Plug-in Hybrid útfærslu í sumar samkvæmt upplýsingum frá Brimborg, umboðsaðila Volvo á Íslandi.

8 gíra sjálfskipting

Aksturseiginleikarnir eru mjög góðir. Þar hjálpar til 8 gíra sjálfskipting sem er afar mjúk. C-Active fjörðunin er rafstýrð  sem gerir V60 enn betri í akstrinum. Samkvæmt upplýsingum frá Volvo gerir hún allt að 500 útreikninga á sekúndu til að meta veg- og akstursaðstæður hverju sinni og svo aðlagar svörunina frá höggdeyfunum til að ná jafnvægi þæginda og stjórnunar sem best.

Hægt er að velja um mismunandi akstursstillingar sem er alltaf skemmtilegt. Með snúningsstýringunni sem er staðsett milli framsætana er hægt að stilla auðveldega milli þriggja sjálfgefna stillinga fyrir vélina, sjálfskiptinguna, stýri, bremsur, stöðugleika stjórnun og stop/start virkninnar. Það er meira að segja hægt að búa til sína eigin samsetningu.

Sænskar lausnir í skottinu

Það fer mjög vel um ökumann og farþega enda er bíllinn stór og rúmgóður að innan.

Farangursrýmið er einnig mjög stórt í bílnum, alls 529 lítrar, enda skutbíll og þar er að finna sniðugar lausnir eins og lokuð geymslupláss sem og fjórir hankar fyrir innkaupapoka og festingar sem tryggja að hægt sé að flytja ýmsan varning örugglega. Svíarnir kunna þetta og nánast eins og IKEA hafi hannað þetta. Rafmagnsstýrður afturhleri er möguleiki í V60 sem gerir hleðsluna í og úr bílnum mun þægilegri.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér