*

Matur og vín 13. október 2013

Saga Garðarsdóttir: Át hreinan sykur

Viðskiptablaðið fékk nokkra vel valda einstaklinga til að segja frá því hvað þeir borða þegar enginn sér til.

Lára Björg Björnsdóttir

Hvernig væri að heyra hvað fólk borðar þegar myrkrið skellur á og enginn sér til? Sérstaklega í ljósi þess að meistaramánuður stendur yfir í öllu sínu heilsusamlega veldi og loforð og lýsingar á heilsusamlegu mataræði dynja á landsmönnum úr öllum áttum.

„Ég trúi því staðfastlega að það sé algjör óþarfi að fela nokkuð það sem maður leggur sér til munns nema það sé nýlátið lík einhvers manns eða mjög stórar kökur gerðar eingöngu úr ólöglegum eiturlyfjum. Ég veit allavega um óléttar konur sem hafa borðað mold án þess að þeir sem af því fréttu hafi yfirgefið þær til að fæða einar í skömm í blómabeði. Við erum nefnilega ekki bara umburðarlynd gagnvart óléttum konum í ófyrirséðum hormónarússíbana heldur höfum við öll gerst sek um að borða eitthvað agalega óhollt gegn betri vitund eða smakkað eitthvað óætt af tómri forvitni. Nokkrum sinnum hef ég þó þakkað fyrir það að inn á mig sé ekki gengið. Eins og til dæmis þegar ég nennti einu sinni ekki út í búð að kaupa mér Lindu buff eða eitthvað og líkami minn öskraði á sykur svo ég sótti sykurkarið, sleikti fingurinn og mataði mig svo með hreinum sykri. Ég gerði þetta reyndar út í glugga með móður minni en ég er fegin að fleiri voru ekki viðstaddir því þetta varð að mjög notalegri mæðgnastund með tilheyrandi flissi og notalegheitum,“ segir Saga Garðarsdóttir leikkona.

Stikkorð: Matur  • Gaman  • Fjör  • Saga Garðarsdóttir