*

Matur og vín 2. desember 2014

Saga Ladurée

Það ætti enginn að vera svikinn af Ladurée makkarónum sem bæði gleðja augu og bragðlauka.

Edda Hermannsdóttir

Súkkulaði-, vanillu-, kaffi-, karamellu-, sítrónu, hindberja- eða pistasíumakkarónur. Allar bráðna þær í munni og renna ljúflega niður með kampavínsglasi í fallega skreyttum sal Ladurée. Kökurnar sjálfar, sem eru varla mikið stærri en einn munnbiti, þarf að njóta vel enda mikil alúð lögð í bakstur þeirra. Í Ladurée í París, og víðar, sitja gestir í veitingastofum og láta þjóna sér til borðs. Úr fjölmörgum öðrum kræsingum er að velja og má í fljótu bragði nefna sítrónukökuna með gómsætu sítrónugeli og alls kyns fylltar bollur með kaffi og súkkulaðikremum. Einnig má taka með sér makkarónur í litlum sem stórum gjafaöskjum.

Þó að margir vilji eigna sér heiðurinn að þessum litríku kökum þá er óhætt að segja að Ladurée hafi gert þessar kökur heimsfrægar. Í dag eru sex Ladurée-bakarí í París en auk þess eru hátt í fimmtíu önnur víða um heim. Hið upprunalega bakarí var opnað á Rue Royale árið 1862 af Louis-Ernest Ladurée sem var malari en einnig mikill rithöfundur. Skrifaði hann skáldsögur, ljóð, leikrit og vísindarit.

Bakaríið brann meðan á Parísarkommúnunni stóð, sem einnig hefur verið kölluð fjórða franska byltingin, en var reist aftur á sama stað. Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1930 sem Ladurée varð vinsælt en þá var það barnabarn Ladurée, Pierre Desfontaines, sem byrjaði að selja tvær makkarónur lagðar saman með mjúkri fyllingu á milli. Makkarónurnar voru löngu þekkt fyrirbæri en í mismunandi útfærslum. Það sem Desfontaines gerði var að opna veitingasal þar sem konur gátu hist. Á þessum tíma var konum ekki heimilt að sækja kaffihús líkt og körlum. Þetta vakti því mikla lukku meðal þeirra.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Makkarónur  • Ladurée