
Hjá mörgum veiðimönnum skipta veiðihúsin miklu máli við val á veiðiám en bæði er boðið upp á veiðihús með og án þjónustu. Oftast er þjónusta í veiðihúsum við dýrari árnar en minni ársvæði bjóða upp á gistingu án þjónustu. Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra þekkta veiðimenn og fékk þá til að nefna fimm bestu veiðihúsin sín. Mjög mörg veiðihús komust á blað og var greinilegt að bæði þjónustan, aðstaðan, náttúran og sagan höfðu mikil áhrif á valið.
Veiðihúsin sem oftast voru nefnd eru veiðihúsin við Haffjarðará, Laxá í Kjós, Vatnsdalsá, Laxá í Aðaldal og Hítará. Má þó segja að flest veiðihús í vinsælustu ánum hafi komist á blað. Má segja að saga og staðsetning hafi mikið að segja en einnig nútímaþægindi á borð við heitan pott og gufu. Þá voru nokkur hús án þjónustu nefnd og var það oftast staðsetningin á þeim sem var aðlaðandi.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.