*

Hitt og þetta 13. júní 2020

Sahara tilnefnt fyrir samfélagsmiðla

Íslenska auglýsingastofan Sahara hefur verið tilnefnt til verðlauna GDXA í flokki bestu auglýsingastofa heims í samfélagsmiðlum.

Sahara, sem er í senn auglýsingastofa og framleiðslufyrirtæki eins og segir á vef félagsins, hefur hlotið tilnefningu til eins af undirflokkum verðlauna um samfélagsmiðlaherferðir.

Verðlaunin eru afhent í 48 flokkum, þar á meðal fyrir bestu notkun persónugreiningartækni, fyrir bestu herferðina fyrir hjálparsamtök og fyrir bestu herferðina sem snýr að viðbrögðum við veirufaraldrinum svo nokkur dæmi séu nefnd.

„Við hjá SAHARA erum virkilega stolt að vera ein af fjórum stofum sem tilnefndar eru til verðlauna hjá Global Digital Excellence Awards sem GLOBAL SOCIAL MEDIA AGENCY OF THE YEAR,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar SAHARA.

Starfsmenn SAHARA eiga þetta svo sannarlega skilið. Á Íslandi erum við á virkilega góðum stað fyrir okkar viðskiptavini og undanfarin ár höfum við unnið þrotlaust að því gera okkur samkeppnishæf á erlendum mörkuðum. Það mun koma í ljós hvort við hljótum verðlaunin þann 23. júní en sama hvernig fer að þá er tilnefningin sannkallaður sigur fyrir okkur í SAHARA.“

Stofurnar sem eru einnig tilnefndar eru margverðlaunaðar og eru með viðskiptavini eins og streymisveituna Netflix, vinsælu netverslunina Asos og kvikmyndafyrirtækið Warner Brothers.

Sahara var stofnað 2016 en sameinaðist framleiðslufyrirtækinu Silent árið 2018 sem hafði þá starfað frá 2009. Í dag starfa hátt í 30 starfsmenn hjá Sahara við að aðstoða á annað hundrað íslenskra og erlendra fyrirtækja með markaðs- og auglýsingamál.