*

Hitt og þetta 16. nóvember 2013

Saknaðarstingur og stjörnur í augum í marga daga

Hvort sem fólk elskar jólalög yfirhöfuð eða ekki, þá eiga allir sitt uppáhaldslag.

Viðskiptablaðið fékk að heyra hvaða lög nokkrir hressir einstaklingar elska meira en önnur.

„Uppáhaldsjólalagið mitt er „Ég fæ jólagjöf“ í flutningi Kötlu Maríu. Bæði er þetta með endemum hresst jólalag og svo útskýrir titill lagsins vel tilgang jólanna – að minnsta kosti í huga flestra barna? Ætli aðalástæðan fyrir því að þetta sé í uppáhaldi hjá mér sé samt ekki sú að Katla María var fyrsta ástin í lífi mínu. Ég á ljóslifandi minningu um það þegar hún kom með stórt segulbandstæki og fylgdarmann í heimsókn á leikskólann Tjarnarborg og söng sig inn í hjarta mitt fyrir alla lífstíð. Við krakkarnir vorum með stjörnur í augum í marga daga á eftir." - Andrés Jónsson, almannatengill.

„Uppáhaldsjólalagið mitt er Driving Home for Christmas með Chris Rea. Lagið vekur upp ljúfar minningar um ökuferð heim í Stykkishólm, rétt undir jól, hlustandi á þetta fallega lag í útvarpinu örugglega undir Hafnarfjallinu með Snæfellsnesfjallgarðinn rauðlogandi í vetrarsólinni í fjarska. Ég fæ alltaf smá saknaðarsting í hjartað og verð yfirkomin af væmni, þegar ég heyri lagið og minnist allra ferðanna sem fjölskyldan hefur ekið vestur til að halda jólin heima." - Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Rætt er nánar við fleiri einstaklinga um uppáhaldsjólalagið í jólagjafahandbók Viðskiptablaðsins sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Jól  • Andrés Jónsson  • Ásthildur Sturludóttir  • Gaman  • Jólalög