*

Bílar 7. október 2014

Sala lúxusbíla eykst mikið

Forstjóri Brimborgar segir bjartsýni hafa aukist verulega hjá einstaklingum.

Sala á lúxusbílum var 30,5% meiri á fyrstu níu mánuðum ársins en í fyrra. Seldust þannig 514 lúxusbílar á tímabilinu samanborið við 394 í fyrra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Til samanburðar voru 462 lúxusbílar seldir árið 2004 og 549 árið 2005. Salan frá 2006 til 2008 var hins vegar mun meiri, en þá seldust á bilinu 1.031 til 1.353 lúxusbíll.

Sala á nýjum fólksbílum hefur jafnframt aukist mikið milli ára. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, hefur greint söluna milli vikna. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að greiningin leiði í ljós að það greinilegur vendipunktur undanfarnar vikur. „Bjartsýni virðist hafa aukist verulega hjá einstaklingum,“ segir Egill og bætir við að kaupmáttur almennings sé að aukast og að eftir því sem líði frá hruni fáist smám saman stærri bílar fyrir krónuna.

Stikkorð: Bílasala  • Egill Jóhannsson