*

Veiði 1. febrúar 2017

Salan er betri en í fyrra

Eigandi Lax-á segist vera búinn að selja um 90-95% af öllum veiðileyfum á háannatíma.

Trausti Hafliðason

Árni Baldursson er eigandi Lax-á, sem selur veiðileyfi í fjölmargar ár eins og Blöndu, Eystri- og Ytri-Rangá, Leirvogsá, Langadalsá og Hvannadalsá, segir sala veiðileyfa hafi gengið afskaplega vel.

„Það er mikil eftirspurn og þá sérstaklega frá útlendingunum en ég finn líka fyrir stíganda í eftirspurninni innanlands. Fyrirtækjamarkaðurinn hefur líka hægt og rólega verið að taka við sér," segir Árni og vísar til þess að fyrirtæki kaupa stundum veiðileyfi. „Árið í fyrra var mjög gott en mér sýnist að salan núna hafi gengið örlítið betur."

Meirihluti þeirra erlendu veiðimanna sem sækja Ísland heim eru frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Styrking krónunnar hefur haft töluverð áhrif á þessa veiðimenn því frá áramótum 2016 og til dagsins í dag hefur krónan styrkst um 25% gagnvart pundi og 12% gagnvart dollar.

„Við tókum þá ákvörðun að taka þessa gengisbreytingu að mestu á okkur því við fundum að það var ekki hægt að velta henni út í verðlagið," segir Árni. „Innkoman minnkar kannski um 15% en með þessu náðum við að halda kúnnunum okkar. Þetta er bara skellur sem við verðum að taka — vonandi tímabundið.  Þetta getur náttúrlega farið í hina áttina þannig að það er ekki alveg sanngjarnt að hleypa þessu öllu út í verðlagið."

Kaupir allar stangir í mánuð í Ytri-Rangá

Árni segist vera búinn að selja um 90-95% af öllum veiðileyfum á háannatíma, sem er í júlí og ágúst. Auk þess sé hann líka búinn að selja vel á jaðartímum — í júní og september. Nefnir hann sem dæmi að Blanda sé orðin mjög þéttsetin, sem og Ytri-Rangá. Árni er reyndar ekki með Ytri-Rangá á leigu heldur norska fyrirtækið Heggøy Aktiv. Hann segist hafa verið í góðu samstarfi við Norðmennina og keypt allar stangir í ánni frá 10. júlí til 10. ágúst næsta sumar. Þau veiðileyfi selji hann síðan áfram til sinna viðskiptavina.

„Þá er Langadalsá á Vestfjörðum nánast uppseld en töluvert af veiðileyfum eru enn til í Hvannadalsá," segir Árni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangveiði  • Laxveiði  • Árni Baldursson  • veiðileyfi