*

Menning & listir 10. ágúst 2020

Salt Saltverks allt að 30-falt dýrara

Business Insider segir umhverfisvæna og vinnuaflsfreka framleiðslu skýra hátt verð og vinsældir saltsins.

Vefmiðillinn Business Insider fjallar um íslensku saltverksmiðjuna Saltverk í tæplega 5 mínútna myndbandi sem birt var síðastliðinn miðvikudag. Myndbandinu er ætlað að skýra hvers vegna salt Saltverks geti verið allt að 30-falt dýrara en annað salt, og samt notið mikilla vinsælda.

Ólíkt ódýru salti sem er grafið upp úr námum víðsvegar um heiminn er íslenska saltið „handunnið á einu afskekktu svæði á norðvesturhluta landsins“, og er þar vísað til Reykjanesskaga á Vestfjörðum.

Saltverk framleiðir 10 tonn af salti árlega. Framleiðsluferlið tekur um viku, og er nánast alfarið unnið í höndunum, að því er fram kemur.

Að auki er það sagt einstakt við saltframleiðslu Saltverks að framleiðslan sé alfarið knúin jarðhitaorku. Heitt vatn úr iðrum jarðar er notað til að sjóða sjávarvatn, svo eftir verður salt.

Hlutfall salts í sjónum er um 3,5%, en það þarf að hækka í 26% til að saltið fari að taka á sig fast form. Saltið er fyrst forhitað þar til það nær um 20% saltmagni, en síðan fært í stórar pönnur og soðið. Við 26% fer saltið að kristallast.

Salt er sagt hafa átt stóran sess í íslenskri matarmenningu í ár og aldir, og meðal annars hafa verið notað sem gjaldmiðill fyrr á öldum.

Farið er yfir sögu saltgerðar hér á landi. Saltverksmiðja danakonungs var staðsett hér á landi á 17. öld, og var saltgerðarmönnum meinað með lögum að eiga fjölskyldu, því það gæti haft áhrif á vinnuna.

Why Icelandic Sea Salt Is So Expensive

This is why Icelandic sea salt is so expensive.

Posted by Business Insider on Wednesday, 5 August 2020
Stikkorð: Saltverk  • Business Insider