*

Hitt og þetta 20. febrúar 2013

Sambandsmiðlun: Andstæðan oft það sem manneskjan þarf

Fyrirtækið Sambandsmiðlun hefur milligöngu á milli tveggja einstaklinga sem eru í makaleit. Mikið að gera að sögn eiganda.

„Það er mjög mikið að gera hjá okkur, 80% af þeim sem hafa leitað til okkar hafa farið á stefnumót og 25% er komið í fast samband,“ segir Rakel Ósk Orradóttir. Hún og Gerður Huld Arinbjarnardóttir stofnuðu fyrirtækið Sambandsmiðlun í júlí í fyrra. 

Markmið Sambandsmiðlunar er að aðstoða einhleypt fólk að kynnast og fara á stefnumót: „Við erum líka með viðburðarklúbb. Þar bjóðum við upp á fyrirlestra á borð við „Daður og deit“ og „Kynlíf og kurteisi“ og síðan erum við líka með námskeið þar sem markmiðið er að finna lykilinn að rétta makanum. Við höfum líka haldið skemmtikvöld og héldum eitt nýlega í Íslensku óperunni. Þar var mjög góð mæting en þetta er flottur vettvangur fyrir einhleypa,“ segir Rakel Ósk.

En hvernig aðstoðar fyrirtækið fólk að komast á stefnumót? „Hrefna Hrund Pétursdóttir, sálfræðingur hjá okkur, hittir einstakling í viðtali þar sem hún fer yfir allskyns málefni til að fá sem besta mynd af persónuleikanum og að hverju einstaklingurinn er að leita,“ segir Rakel Ósk og bætir við að oft sé fólk dálítið ráðalaust þegar kemur að makaleit: „Markmiðið með viðtalinu er líka að fá fólk til að opna sig aðeins og brjótast út úr rammanum því margir eru oft fastir í einhverju fari sem þeim finnst erfitt að komast upp úr. Þegar viðtalinu er lokið er farið í að leita að einstaklingi sem er á skrá hjá okkur og fólk er parað saman. Hingað til hafa 150 manns komið í þessa þjónustu til okkar en allt í allt eru 500 manns á skrá hjá okkur.“

Rakel Ósk segir þessa þjónustu kosta 55 þúsund og innifalið í því sé markviss leit í sex mánuði en fólk sé auðvitað á skrá áfram ef það vill. 

En hvað með gömlu góðu mýtuna um að andstæður séu góðar saman? „Það getur verið mjög gott að fólk sé algjörar andstæður á meðan það er opið og til í að prófa eitthvað nýtt. Stundum er það algjörlega nauðsynlegt, andstæðan er oft það sem manneskjan þarf,“ segir Rakel Ósk. 

Stikkorð: Sambandsmiðlun