*

Bílar 22. desember 2019

Sameinar kosti lúxusjeppa og pallbíls

Með framleiðslu Volkswagen á Amarok pallbílnum árið 2010 hóf fyrirtækið innreið sína á markaðinn fyrir pallbíla.

Róbert Róbertsson

Volkswagen Amarok er vel hannaður og flottur pallbíll sem hefur upp á að bjóða mikla notkunarmöguleika. Bíllinn er rúmgóður með sæti fyrir fimm innandyra og stóran pall.

Amarok kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2010 en með honum hófst framleiðsla Volkswagen á meðalstórum pallbílum. Önnur kynslóð bílsins kom á markað árið 2017 og var þá mikið breytt. Sala á Amarok hefur gengið mjög vel víða um heim og kemur ekki á óvart enda hannaður fyrir fólk með fjölbreyttan lífsstíl. Það er hægt að nota hann sem atvinnubíl og einnig til einkanota m.a. í öll helstu áhugamálin t.d. hestamennsku eða útilegur.

Aflmikil V6 vél

Útlitið á Amarok er voldugt enda er þetta stór og mikill pallbíll. Hæð bílsins er 1.834 mm, breiddin 2.228 mm og lengdin er 5.254 mm. Hann er kraftalegur að sjá og það fer ekkert af honum þegar sest er undir stýri. Innanrýmið er vel heppnað og það er auðvelt að sjá á innréttingunni og mælaborðinu að hér sé um Volkswagen að ræða. Ættareinkennin eru augljós. Amarok er með mikið innanrými og góð og þægileg sæti fyrir fimm manns. Skjárinn fyrir bakkmyndavélina er ekki stór en myndin er skýr og bætir það upp. Amarok er með stóran pall sem tekur mikið af dóti og því eins gott að vera með bakkmyndavél.

Bíllinn er með prýðilega aksturseiginleika. Hann er með þriggja lítra V6 dísilvél sem skilar þessum stóra bíl mjög góðu afli. Bíllinn er 258 hestöfl og aðeins 7,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið sem er gott fyrir svo stóran bíl. Hámarkshraðinn er uppgefinn 203 km/klst. Eldsneytiseyðslan er frá 8,4 l/100 km.

Dráttargetan 3.500 kg

Nýr Amarok er talsvert aflmeiri en forverinn sem var með 4 strokka vél sem skilaði 179 hestöflum. Þriggja lítra V6 vélin með sína 6 strokka er ansi öflug í þessari nýjustu útfærslu og gerir svo mikið fyrir bílinn.

Amarok er með allt að 550 Nm togi og átta gíra sjálfskiptingu sem er mjög fín. Dráttargetan er alls 3.500 kg sem verður að teljast afar gott. Eyðsla í blönduðum akstri er frá 8,4 lítrum samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda en í raun er hún alltaf meiri þegar á reynir en auðvitað spilar þar inn í aksturslag og hvort mikil þyngd er á bílnum eður ei.

Mýkri en von var á

Amarok er þægilegur í jafnt lengri sem styttri ferðum. Hann er mýkri en maður á von á miðað við að hér sé um að ræða pallbíl og spilar þar inn í góð fjöðrun sem er í bílnum og talsvert betri en í eldri gerð. Aflmikil vélin hjálpar til við að gera aksturinn skemmtilegan og sprækan á svo miklum bíl. Beygjuradíusinn er innan við 13 metra sem gerir hann einstaklega lipran í borgarumferð auk þess sem hann tæklar erfiðustu aðstæður með öflugu fjórhjóladrifi. Bíllinn er mjög stöðugur í akstri og liggur vel. 

Það má segja að Volkswagen Amarok sameini kosti lúxusjeppa og pallbíls og búnaðurinn er einstaklega ríkulegur. Meðal staðalbúnaðar má nefna hita í framsætum, tvískipta tölvustýrða loftkælingu, fjarlægðarskynjara að framan og aftan, Bluetooth, 18" álfelgur, sjálfvirkan vélarhitara (Webasto) og regn- og birtuskynjara. Í Highline Plus útfærslunni eru að auki LED aðalljós og bakkmyndavél.

Mætti hafa dráttarkrók sem staðalbúnað

Það mætti alveg hafa dráttarkrók sem staðalbúnað í pallbíl en hann er aukabúnaður. Hann fylgdi að vísu með bílnum sem prófaður var í reynsluakstrinum. Aukabúnaður í reynsluakstursbílnum var auk þess 100% læsing á afturdrifi, heilhúðun á pall, leður/Alcantrara sætisáklæði og stigbretti auk 32 tommu Mastercraft vetrardekkja. Þetta kostar allt aukalega að sjálfsögðu. Verðið á Volkswagen Amarok er frá 8.990.000 kr.

Stikkorð: Volkswagen  • bakkmyndavél  • innanrými  • Amarok