*

Menning & listir 4. september 2020

Sami leikstjóri að Skaupinu og í fyrra

Hugleikur, Lóa Hjálmtýs, Vala Kristín, Þorsteinn Guðmunds, Bragi Valdimar og Katla Margrét skrifa næsta Áramótaskaup.

Höfundar Áramótaskaupsins í ár eru Hugleikur Dagsson, Lóa Hjálmtýsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Þorsteinn Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason og Katla Margrét Þorgeirsdóttir. Reynir Lyngdal leikstýrir Skaupinu líkt og í fyrra. Tökur á nnæsta Áramótaskaupi hefjast í nóvember og Republik sér um framleiðsluna.

Reynir Lyngdal leikstjóri segir það vera eina skemmtilegust vinnu sem hægt sé að hugsa sér sem leikstjóri og höfundur að gera Áramótaskaupið.

„Að skoða og greina samtímann í gegnum grín og hafa tækifæri til að vinna með fyndnasta fólki á landinu eru forréttindi. Þegar mér bauðst að gera Skaupið í ár eftir að hafa gert, að því er mér finnst, vel heppnað skaup í fyrra þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um,“ segir Reynir.

„Erfiðleikar vegna kórónuveirufaraldursins og afleiðinga hans á allt samfélagið kalla á nærgætni og efnistök sem gleðja og hlýja. Við viljum vekja von. Þó er engin hræðsla við að gera gagnrýnið grín þegar það á við á sama tíma og virðing fyrir fólki  er í hávegum höfð.  Vonandi tekst okkur sem að þessu vinnum að gera árinu góð skil og skemmta landanum í leiðinni.”

Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri sjónvarps segir það hafa strax vakið áhuga stjórnenda Ríkisútvarpsins að Reynir hafi lýst áhuga á að fá að endurtaka leikinn frá síðasta ári og gera annað Áramótaskaup.

„Einfaldlega vegna þess að síðasta Skaup var að okkar mati alveg afgerandi vel heppnað í nær alla staði og af viðbrögðum að dæma virðist þorri þjóðarinnar hafa verið á sama máli. Það sem stóð þar upp úr og gladdi okkur sérstaklega var hversu vel tókst upp við að ná þeirri næsta ómögulega breiðu skírskotun sem Skaupið þarf að hafa og þá einkum með tilliti til vals á viðfangsefni, hins breiða aldurshóps sem horfir á Skaupið og svo auðvitað smekks á gríni,“ segir Skarphéðinn.

„Svo gerði það útslagið þegar Reynir og félagar hjá Republik lögðu til þetta geggjaða skrifarateymi sem samanstendur af nokkrum af okkar reyndustu grínhöfundum í bland við yngri sem eru tvímælalaust með þeim okkar allra efnilegustu. Svo spilar óneitanlega inn í  að til umfjöllunar verður afar sérstakt ár, hreint fordæmalaust nánast í einu og öllu, og þá er eins gott að þeir sem tækli það kunni til verka."