*

Hitt og þetta 19. september 2006

Samkeppniseftirlitið opnar enska útgáfu af heimasíðu sinni

Samkeppniseftirlitið opnaði nýlega enska útgáfu af heimasíðu sinni www.samkeppni.is/en. Með rekstri öflugrar heimasíðu á ensku vill Samkeppniseftirlitið leggja sitt af mörkum til þess að efla þekkingu erlendra aðila á samkeppnismálum hér á landi segir í frétt á heimasíðu þeirra.

Heimasíðu Samkeppniseftirlitsins er ætlað að vera öflug upplýsingaveita um samkeppnismál. Þar má finna ítarlega umfjöllun um eftirfarandi:

Upplýsingar um skipulag, málshraða, málsmeðferð, lög og reglur um samkeppnismál og erlent samstarf.
Leiðbeiningar um það hvernig erindi til Samkeppniseftirlitsins þurfi að vera úr garði gerð o.fl.
Ábendingar um samkeppnislagabrot. Boðið er upp á að senda Samkeppniseftirlitinu nafnlausar ábendingar um samkeppnislagabrot í gegnum heimasíðuna.

Ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins. Með samandregnum yfirlitum yfir einstakar ákvarðanir og leitarvél er leitast við að gera ákvarðanir samkeppnisyfirvalda aðgengilegar.

Fréttir. Leitast verður við að hafa helstu innlendar fréttir um samkeppnismál og helstu fréttir um samkeppnismál í nágrannalöndunum aðgengilegar á heimasíðunni.

Tenglar. Á heimasíðunni má nálgast öflugt tenglanet um samkeppnismál.

Hin enska útgáfa heimasíðunnar hefur að geyma upplýsingar um allt framangreint. Ákvarðanir eftirlitsins verða þó ekki þýddar, en yfirlit yfir ákvarðanir, meginniðurstöður, og í einstökum tilvikum úrdráttur máls verður aðgengilegur á ensku segir í frétti Samkeppniseftirlitsins.