*

Sport & peningar 9. júlí 2012

Samningur Gunnars Nelson við UFC opnar nýjar dyr

Samningur Gunnars Nelson við UFC býður upp á tækifæri fyrir auknar tekjur og hærri styrktarsamninga. Er enn ósigraður í bardaga.

Gísli Freyr Valdórsson

Samningur Gunnars Nelson við UFC (e. Ultimate Fighting Championship) opnar fyrir möguleikann á því að Gunnar getur nú stundað bardagaíþróttir að atvinnu, auk þess sem samningurinn kann að opna fyrir nýja og betri styrktarsamninga.

Þetta segir Haraldur Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, í samtali við Viðskiptablaðið. Sem kunnugt er hefur Gunnar skrifað undir samning hjá UFC, sem er stærsta samband heims í blönduðum bardagaíþróttum (MMA). Fyrsti bardagi Gunnars innan sambandsins hefur ekki verið ákveðinn en það mál gæti skýrst í næstu viku.

Aðspurður segir Haraldur að samningurinn feli í sér ákveðinn fjölda bardaga. Fjöldinn er ekki gefinn  upp en hann var að sögn Haraldar í takt við það sem þeir feðgar höfðu óskað eftir. Að þeim bardögum loknum er samningurinn síðan endurskoðaður með það að sjónarmiðið að semja upp á nýtt.

„Við erum afar stolt af honum, þetta er stærsti samningur sem íslenskur bardagaíþróttamaður hefur gert,“ segir Haraldur í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðspurður um fjárhagslegan ávinning af samningnum segir Haraldur að ekki sé um stórar upphæðir að ræða. Þetta verði þó til þess að Gunnar geti haft atvinnu af íþróttinni um ákveðin tíma.

„Gunnar hefur sjálfur lítið einblítt á peningana í þessu samhengi,“ segir Haraldur.

„Hann vill hafa frelsi til að stunda íþróttina enda á hún hug hans allan. Þær upphæðir sem þarna um ræðir eru langt frá því sem við þekkjum t.d. í knattspyrnunni.“

Sem fyrr segir kann samningurinn þó að leiða af sér hærri styrktarsamninga. Rétt er að taka fram að Gunnar er enn ósigraður í íþróttinni. Hann hefur sigrað níu af tíu bardögum sínum, en sá fyrsti endaði með jafntefli. Af níu sigrum hefur hann sigrað átta sinnum í fyrstu lotu. Hann hefur þrisvar rotað andstæðinga sína og sex sinnum hafa þeir gefist upp fyrir honum.

 

Stikkorð: Gunnar Nelson  • UFC  • Bardagaíþróttir