*

Tölvur & tækni 21. júní 2012

Samsung Galaxy S III: Flaggskip á flugsundi

Nýjasti snjallsíminn frá Samsung er örþunnur, fisléttur og geysihraðvirkur. Viðskiptablaðið prófaði græjuna.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Nýjasti farsíminn úr smiðju Samsung lenti á skerinu í síðustu viku. Hann hefur fengið rífandi dóma hjá erlendum tæknispekúlöntum

Viðskiptablaðið fékk gripinn hjá Samsung-setrinu og fannst hann fara einkennilega í hendi fyrsta kastið. Skýringin liggur í hlutföllunum. Þetta er tiltölulega stór gripur (13,6 x 7 cm) sem gerir hann nokkuð stærri en forverann, Samsung Galaxy S II. Síminn er eftir sem áður fisléttur, aðeins 133 grömm, og álíka mjór og fyrri gerð (0,8 cm). Þegar á reynir er gripurinn passlegur.

Stór skjárinn skilar því að gott er að lesa af skjánum, lyklaborðið er viðráðanlegt og afkastagetan langt yfir meðallagi.

Kíkjum á innvolsið

Samsung Galaxy S III keyrir á 1,4 GHz Exynos 4 quad-örgjörva og með 1 GB skyndiminni (RAM) sem lætur símann virðast ekkert þurfa að hafa fyrir hlutunum. Sem fyrr er stýrikerfið frá Android. Hér er það hins vegar nýja 4.0-útgáfan, Ice Cream Sandwich, sem liggur undir húddinu. 

Umgjörð stýrikerfisins virðist í fyrstu svipa til eldri útgáfa allt niður í 2.2-gerð stýrikerfisins sem fylgir ódýrari Android-símum. Þegar á reynir er Ice Cream Sandwich mun skemmtilegra. Þar spila saman skemmtilegar viðbætur, hröð vinnsla símans og góður skjár sem lætur vel að stjórn og gott er að lesa af. 

Það skemmtilega við símann er það sem sést ekki. Bakhlið síman er örþunn úr plasti sem lítið mál er að fletta af. Þar kemur útskiptanleg rafhlaða í ljós, sem getur komið sér vel. Aldrei reyndi á rafhlöðuna, hún tæmdist ekki þrátt fyrir nokkuð reglulega notkun í nokkra daga. Sömu sögu er ekki að segja af rafhlöðum annarra síma sem eiga að vera af svipuðum gæðum.

Galdurinn liggur sem fyrr í Samsung-símunum í minniskortinu. Síminn kemur ekki í nokkrum gerðum með misstórt minni heldur geta notendur skipt minniskortunum inn og út, stækkað það og minnkað eftir þörfum, farið úr 16 GB í allt að 64 GB. Það jafnast á við minnið í öflugustu spjaldtölvu. Slíkt getur komið sér afar vel. 

Fínn skjár

Skjárinn í öllum snjallsímum eru eins og gefur að skilja lykillinn að góðum síma. Og góður er hann í Samsung Galaxy S III. Hann nemur allar snertingar og skynjar allt það sem notandi ætlast til - ólíkt sumum ódýrari snjallsímum (sjálfur er ég með LG P500 sem á köflum getur verið tregur í taumi). Í Samsung Galaxy S III  er 4,8 tommu HD Amoled-skjár og skilar góðum myndum í háskerpu. Meira að segja Dettifoss úr auglýsingabroti af YouTube á stórmyndinni Prometheus og ýmis smáatriði úr myndinni  komust vel til skila í þessum „litla“ skjá. 

Þokkaleg myndavél

Tvær myndavélar eru á símanum frá Samsung. Á framhliðinni er 1,9 MP-vél en á bakhliðinni 8 MP-myndavél sem getur tekið upp myndbönd í háskerpu. Þar er höggvið í sömu knérunn og í Samsung Galaxy S II. Myndavélin er þokkaleg og skilar myndum í kringum 2 MB sem má vinna með í myndvinnsluforritum. Síminn býður upp á ýmsar stillingar sem má nota, s.s. myndatökur af landslagi, íþróttaviðburðum og þess háttar.

Rúsínan í pylsuendanum er hins vegar sú að nú má velja hvar myndavélin stillir fókusinn og skiptir engu hvort viðfangsefnið er í miðjunni eða efst í hægra horninu. Þetta er sambærilegur möguleiki og prýðir nýjustu spjaldtölvuna frá Apple, sem flestir kannast við sem iPad 3, og kemur sér vel enda möguleikarnir fleiri en áður. Nóg er að draga fókusinn á þann stað sem maður kýs og smella af. Þá gerir flassið mikið fyrir myndavél símans. Það er hins vegar saman sagan með myndavélina í Samsung Galaxy S III  og flestar myndavélar í farsímum - hún mætti vera betri. Reyndar má fá ívið meiri gæði og skarpari myndir með þeim stillingum sem boðið er upp á og vinna þær frekar í tölvu. 

Í hnotskurn

Samsung Galaxy S III er geysilega öflug og skemmtileg græja sem skilar því sem hún á að gera og gott betur. Myndavélin mætti vera betri. Verðið er í hærri kantinum en réttlætanlegt enda sambærilegt við aðra síma af svipuðum gæðum. Það er í kringum 140.000 kallinn.