*

Tölvur & tækni 1. júní 2014

Samsung Galaxy S5: Flottasti síminn til þessa

Blaðamaður Viðskiptablaðsins er búinn að prófa nýjasta símann frá Samsung.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Suður-kóreska tæknifyrirtækið hefur síðastliðin fimm ár sett á markað hvert tækniundrið á fætur öðru í Galaxy-snjallsímaseríunni. Símarnir hafa verið hver öðrum betri og flottari. Fyrstu símarnir voru nokkuð klunnalegir þótt þeir hafi sinnt því sem þeir áttu að gera en heldur lítið fyrir augað. Inn á milli hafa svo komið á markað símar úr smiðju Samsung sem eru af ýmsum stærðum og gæðum. Með Samsung Galaxy S3 sem kom á markað fyrir tveimur árum var þetta tvennt tvinnað saman í einni græju; það er flott hönnun í troðfullu tækniboxi. Síðan þá hefur þróunin verið tekin í nokkrum stórum skrefum.

Samsung Galaxy S5 er eðlilegt næsta skref á eftir S4 og talsvert frá S3. En skrefin eru ekki stór. Í sjálfu sér er óþarfi að flækja sig um of í tæknilegum málum. Mestu munar um að S5 er stærri á allan hátt en S3 og hraðvirkari. Þá er skjárinn betri og myndavélin framúrskarandi. Á móti er ýmislegt í innvolsi símann sem ég hreinlega veit ekki hvort skipti miklu máli. Þar á meðal er 4K myndbandsupptökutækni, púlsmælir og fingrafaraskanni, nokkuð sem ég hef aldrei saknað og sé ekki fyrir mér að hafa mikil not fyrir. En það má vel vera að þetta sé lífsnauðsynlegur fylgibúnaður sem réttlætir verðið.

Bjartur skjár

Síminn sjálfur er heilum sex sentímetrum hærri, rúmum tveimur sentímetrum breiðari en varla þykkari svo nokkru nemi þótt auðvitað muni einhverju. Þá er hann eilítið þyngri en vart svo nokkru nemi. Þrátt fyrir þetta er hann meðfærilegur enda ekki eins mikið um sig og aðrir símar, s.s. Nokia Lumia 1520 sem virðist nær því að vera spjaldtölva í smærri kantinum en sími. Hvað útlit og áferð snertir þá er ný bakhlið á símanum frábært. Í stað spegilslétta harðplastsins er komin grófgerð bakhlið sem bætir gripið á símanum til muna og dregur úr líkunum á því að hann renni úr greipum þess sem heldur á símanum.

Fyrir almenna notendur er breytingin ekki mikil. Mesta breytingin sem ég tók eftir var skjárinn. Hann er eins og í S4, afar skýr, Full HD Super Amoled 1920x1080 borið saman við 720x1280 HD Super Amoled í S3.

Loksins ásættanleg myndavél

Þá er myndavélin komin upp í 16 MP upplausn í stað 13 MP í S4 en sem er stórstökk frá 8 MP myndavélinni í S3. Myndavélatæknin í mörgum snjallsímum hefur pirrað mig í gegnum tíðina, þ.e.a.s. að notendur þurfa að smella á skjáinn til að stilla fókus en smella svo af. Þetta hefur þurft að gera með tveimur fingrum og krefst ansi mikillar nákvæmni. Ljósmyndarinnar má allavega ekki vera mjög skjálfhentur ætli hann að halda fókus. Ég hef lengi lofað myndavélatæknina sem símar Nokia hafa búið yfir. Þar er ýmist hægt að smella af mynd og láta símann um það að stilla fókus eða snerta á skjáinn til að velja hvar eigi að stilla á fókus áður en síminn tekur mynd. Þessi tækni hefur oft skilað betri myndum en mér hefur tekist að taka á öðrum snjallsímum. Þetta er nú loksins hægt með Samsung Galaxy S5 og er það afbragð. Ekki veit ég hvort þessi nýjung skrifast á KitKat-uppfærsluna á Android-stýrikerfinu eða eitthvað annað. En þetta er allavega loksins mögulegt í S5-síma Samsung og ég hef ekki tekið eftir áður, hvorki í S3 né S4. Þessi breyting gerði það að verkum að myndirnar úr S5-símanum eru þær bestu sem ég hef tekið með græju úr Galaxy-seríunni. 

Í hnotskurn:

Samsung Galaxy S5 er rökrétt skref. Besti síminn í seríunni til þessa. Síminn kostar um 120.000 krónur hjá helstu fjarskiptafyrirtækjunum. Þetta er um 20.000 króna verðlækkun frá því sem forverarnir kostuðu. Ekki kann ég skýringu á því að verðið hefur lækkað. Þetta er í hærri kantinum samanborið við iPhone Apple og síma Nokia, sem reyndar máttu við því að lækka í verði.

Myndirnar hér að neðan tala sínu máli. Þótt þetta séu engin meistaraverk í ljósmyndun þá sést að litirnir skýrir og góðir - og það sem meira er: Ekkert hefur verið átt við myndirnar og þær eru í fókus!