*

Tölvur & tækni 31. janúar 2012

Samsung í Kóreu leitar tæknilausna í Kópavogi

Hugbúnaður frá íslenska fyrirtækinu App Dynamic hefur notið mikilla vinsælda í netverslun Apple víða um heim.

Hugbúnaðarfyrirtækið App Dynamic í Kópavogi hefur gefið út nýtt smáforrit (app) fyrir iPhone-síma og iPad-spjaldtölvur frá Apple. Forritið heitir Air Media Center. Það hefur verið til til sölu í netverslun iTunes í örfáa daga og situr víða í efsta sæti á sölulistum í rúmlega 40 löndum.

Pratik Kumar, framkvæmdastjóri App Dynamic, segir hugbúnað fyrirtækisins sem steymi efni á milli tækja frá Apple hafa notið mikilla vinsælda í netverslunni. Það sé því eðlilegt skref að stækka vöruúrvalið sem snýr að hugbúnaði sem getur streymt efni á milli tækja. 

Fram kemur í tilkynningu frá App Dynamic að hugbúnaðurinn Air Media Center er ný lausn fyrir notendur tækjabúnaðar frá Apple sem opnar aðgang að kvikmyndum, ljósmyndum, tónlist og persónulegum myndböndum á Mac og PC-vélum í gegnum iPhone og iPad.

Air Media Center hefur þegar selst betur en mikið auglýstar vörur samkeppnisaðila, þar á meðal AirVideo og StreamToMe, að því er segir í tilkynningunni.

App Dynamic ehf. hefur áður náð góðum árangri í sölu og komist í fréttirnar hjá stórum erlendum fjölmiðlum með ýmis forrit eins og Remote HD, Air Frame og Airserver.

Samsung leitar í Kópavoginn

Tæknirisinn Samsung leitaði til App Dynamic fyrir nokkru  og óskaði eftir samstarfi varðandi þróun á snjallsímaforritun. Air Media Center var fyrst gefið út á Bada-kerfi Samsung. Fyrirtækið vinnur nú að útgáfu Air Media Center fyrir Android og Samsung Smart TV sem koma á markað fljótlega.

Stikkorð: App Dynamic  • Pratik Kumar