*

Tölvur & tækni 8. janúar 2013

Samsung kynnti nýja sjónvarpstækni á tækjaráðstefnu

Tæknifíklar fá eitthvað fyrir sinn snúð á hinni árlegu CES-tækniráðstefnu sem hófst í spilaborginni Las Vegas í gær.

Róbert Róbertsson

Suður-kóreska hátæknifyrirtækið Samsung kynnti ný og hátæknivædd sjónvarpstæki á CES-tækjasýningunni í Las Vegas í Bandaríkjunum sem hófst í gærkvöld. Samsung hefur tilkynnt að þessi nýju sjónvarpstæki muni bjóða upp á það besta í tækni, mynd og hljóði sem völ er á í dag. Tækin koma hingað til lands í apríl.

Á sýningunni var í fyrsta lagi kynnt 55 tommu OLED TV F9500 sjónvarpstæki sem er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum og líklega það fullkomnasta sem fram hefur komið. Tækið er með hinni nýju og byltingarkenndu Multi-View tækni frá Samsung sem þýðir að tveir einstaklingar geta setið framan við tækið en horft á sitthvort efnið á sama skjánum. Til þess þarf reyndar hvor þeirra sitt stjórnkerfið og þrívíddargleraugu, sem fylgja tækinu. Gleraugun eru með innbyggðum hátölurum sem tryggja viðkomandi fullkomið hljóð auk myndar frá því sjónvarpsefni sem horft er á. 

Þá kynnti Samsung 85 tommu Samsung S9 Ultra HD-tæki, sem er stærsta sjónvarpstæki fyrir heimili sem völ er á. Tækið er með 4K upplausn sem er næstum helmingi meiri upplausn en í nýjustu tækjunum á markaðnum í dag. Tækið er einnig með Precision Pro Black-tækni frá Samsung sem tryggir afar fullkomin myndgæði.

Vel búin undir framtíðina

Samsung kynnti einnig nýju flaggskipin í LED- og Plasma-tækjum. Þau eru með Quad Core-örgjörvum sem gefa 3,6 sinnum meiri hraða, endurhannaðan og betri SMART HUB og stuðning við nýja HEVC myndbandsstaðalinn. Tækin eru frá 46 og upp í 75 tommur að stærð.

Nýju Samsung sjónvarpstækin eru með enn fullkomnari Smart Interaction tækni sem hægt er að nota til að stjórna tækjunum með tali eða hreyfingum. Þá eru tækin orðin enn öflugri í forritum, vefvafstri og fleiru í gegnum Smart Hub. Sjónvörpin eru líka búin undir framtíðina þökk hinum magnaða Smart Evolution viðbótarpakka sem bæta myndgæði og afköst auk þess að veita aðgang að nýjustu eiginleikum á markaðnum. Þeir sem hafa þegar fjárfest í 7 og 8 línunni frá Samsung býðst sá kostur að geta uppfært tækið sitt með Smart evolution tækninni núna í vor þegar nýju tækin koma

Lenda hér í vor

Tækin koma á markað hér á landi í apríl og verða þá kynnt í Samsung setrinu í Síðumúla. 

„Við eigum von á að þessi nýju sjónvarpstæki komi á markað hér á landi í apríl. Við bíðum auðvitað mjög spennt eftir þessum hátæknivæddu tækjum,“ segir Bjarni Þórhallsson, sölustjóri hjá Samsung setrinu.

Stikkorð: Samsung  • CES