*

Tölvur & tækni 19. mars 2013

Samsung með snjallt armbandsúr í vinnslu

Í ljósi þess hve samkeppni Apple og Samsung er hörð ætti ekki að koma á óvart að bæði fyrirtækin eru að hanna snjöll armbandsúr.

Kóreski tæknirisinn Samsung er að þróa snjallt armbandsúr, sem á að virka að miklu leyti eins og snjallsími. Lee Young Hee, yfirmaður snjallsímaarms Samsung, staðfestir þetta í viðtali við Bloomberg. Þar segir hann að starfsmenn fyrirtækisins vinni hörðum höndum að því að hanna nýjar vörur og að armbandsúr sé á þeim lista.

Lee vildi ekki gefa neitt upp um hvaða kostum úrið verður búið, hvað það muni kosta eða hvenær búast megi við því á markaðinn.

Fréttin er ekki síður athyglisverð í ljósi þess að í síðasta mánuði bárust fréttir af því að um 100 starfsmenn Apple vinna nú að hönnun og smíði snjalls armbandsúrs, sem eigi að falla inn í vörulínu fyrirtækisins líkt og iPhone síminn og iPad spjaldtölvan. Í frétt Bloomberg segir að um heim allan seljist armbandsúr fyrir 60 milljarða dala á ári og það fyrirtæki sem fyrst kemur inn á þennan markað með snjallt úr gæti náð til sín stórum hluta markaðarins.

Taka ber fram að myndin sem fylgir með þessari frétt er ekki af þessu nýja úri Samsung, heldur af úrinu Samsung s9110, sem kom út árið 2009 og fékk afar dræmar viðtökur þá.

Stikkorð: Apple  • Samsung
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is