*

Tölvur & tækni 1. júlí 2013

Samsung selur helming allra snjallsíma í Evrópu

Töluverður munur er á því hvers konar snjallsímar njóta hylli neytenda í Bandaríkjunum og Evrópu.

Nær helmingur allra seldra snjallsíma í Evrópu kemur úr verksmiðjum Samsung fyrirtækisins, að því er segir í frétt Financial Times. Þar segir einnig að símar, sem keyra á Android stýrikerfinu, hafi verið ríflega 70% allra seldra síma á tímabilinu mars til maí á þessu ári samanborið við 61% á sama tímabili í fyrra.

Hlutur Apple í evrópska snjallsímamarkaðnum var á þessu tímabili undir 20% og símar sem keyra á Windows stýrikerfinu áttu um 7% af markaðnum.

Android hefur ekki notið jafnmikils vaxtar á öðrum markaðssvæðum og stóð markaðshlutdeild Android síma í stað í Bandaríkjunum á milli ára, en þar er um helmingur allra seldra snjallsíma með Android stýrikerfi. Í Bandaríkjunum jókst markaðshlutdeild iPhone síma Apple um 3,5 prósentustig og nam 42% á tímabilinu.

Hlutfallslega hefur sala á Windows símum aukist mest, en á tímabilinu mars til maí í fyrra voru Windows símar 4,3% seldra snjallsíma, en í ár var hlutfallið 7% eins og áður segir.

Stikkorð: Apple  • Android  • Samsung  • iPhone  • Windows