*

Tölvur & tækni 17. júní 2014

Samsung skorar hátt

Sjónvörp frá Samsung eru einráð í gæðakönnun Neytendablaðsins. Í efstu tveimur sætunum eru 55 tommu sjónvörp.

Sjónvörp frá s-kóreaska tæknifyrirtækinu Samsung eru í níu af tíu efstu sætunum i gæðakönnun Neytendablaðsins á sjónvarpstækjum. Könnunin birtist í 2. tbl. Neytendablaðsins sem kom út núna í  júní en þar er borinn saman fjöldi sjónvarpstækja frá öllum helstu framleiðendum. 

Í tveimur efstu sætunum eru 55 tommu Samsung sjónvarpstæki sem kosta í kringum hálfa milljón króna. Sony er eina merkið utan Samsung sem kemst á topp tíu listann en í 9. sæti er Sony tæki sem kostar um eina milljón króna. Sjö sjónvarpstæki frá Samsung, sem eru meðal tíu efstu tækja í könnunni, kosta frá um 210-450 þúsund krónur.

Samsung fær i könnuninni hæstu einkunn fyrir myndgæði og almennt mjög góðar einkunnir fyrir hljóðgæði og orkunotkun. Athygli vekur að engin tæki frá þekktum framleiðendum eins og t.d. Philips, Panasonic og LG eru á meðal þeirra bestu samkvæmt þessari könnun Neytendablaðsins.

Stikkorð: Samsung