*

Hitt og þetta 14. janúar 2013

Sannar sögur af mánudögum

Fáir dagar þykja ömurlegri en mánudagar. En eru þeir hræðilegri en aðrir dagar vikunnar? Hvað veldur?

Lára Björg Björnsdóttir

Viðskiptablaðið hringdi rúnt og kannaði hvernig dagurinn er búinn að vera hingað til og sögurnar eru ekki fallegar. Við vörum viðkvæma við lestrinum. 

Þú veist að það er mánudagur þegar:

„Ég var að lenda í því að vinnufélagi minn var að flauta Júróvisíónlagið síðan í hitteðfyrra og bað mig síðan um að koma að vanga. Hann spurði mig hvort ég gæti ekki gólað “wuhú” sem bakrödd og fór síðan að reyna að kenna mér hvernig ég gæti sungið þetta sem fallegast.“ 

„Ég missti af Downton Abbey í gærkvöldi en það er allt í lagi því ég hitti tækninörd í búningsklefanum áðan í ræktinni sem downloadaði öllu draslinu, horfði á alla seríuna á einni helgi og sagði mér allt.“

„Áðan var mér boðið í þrefalt barnaafmæli næstu helgi.“

„Það verður Cross Fit-kynning í hádeginu í vinnunni. Allir út á plan að lyfta einhverjum kössum.“

„Ég keypti óvart grísahakk en ekki nautahakk í Bónus.“

„Ég kveikti á útvarpinu í bílnum en þá var einmitt stillt á Útvarp sögu. Og bróðir minn var að hringja inn.“

„Ég fór með son minn á leikskólann áðan en á leiðinni týndi ég 30 þúsund króna kuldagallanum. Svo krakkinn þarf að vera inni. Fóstrurnar voru allar með buff á höfðinu, börnin með húfur, tvö börn krúnurökuð og mér var rétt blað með leiðbeiningum um lúsakembun.“

„Ég var að hlusta á pathetic lagalistann minn í vinnunni og kippti óvart heyrnartólunum úr sambandi svo Celin Dion vældi yfir alla skrifstofuna, grenjandi á frönsku.“

„Allir í vinnunni ætla á Mann lifandi í hádeginu og konan á næsta borði er að bjóða opna vinnurýminu upp á létt ristaðar möndlur sem hún velti upp úr sjávarsalti og dýfði ofan í hunang í gærkvöldi.“

Stikkorð: Mánudagur