*

Bílar 23. desember 2020

Sannkallaður Lúxussendibíll

Mercedes-Benz Sprinter er afar góður í akstri og ökumanni líður frekar eins og hann sé að keyra lúxusjeppa en sendibíl.

Róbert Róbertsson

Mercedes-Benz Sprinter er vinsælasti atvinnubíll þýska bílaframleiðandans sem er auk þess stærsti framleiðandi atvinnubíla í heiminum. Sprinter kom fyrst á Evrópumarkað árið 1995 og hefur í 25 ár átt mikilli velgengni að fagna víða um heim ekki síst þar sem hann hefur reynst mjög áreiðanlegur og fjölhæfur auk þess sem hann þykir vel hannaður og prýðisgóður í akstri.

Þetta er þriðja kynslóð þessa vinsæla og dugmikla sendibíls. Bíllinn er kraftalegur ásýndar. Útlitslínur bílsins eru vel heppnaðar sem og ljósabúnaður að framan og aftan.

Hönnun bílsins fylgir nútímalegri hönnunarstefnu Mercedes-Benz með heitið „Sensual Purity“. Innanrýmið var endurhannað í þessari þriðju kynslóð bílsins og hefur verið bætt til að gera vinnuaðstöðu ökumanns enn betri en áður.

Innréttingin er lagleg, vel hönnuð og mjög góð í alla staði. Þar er að finna aukin þægindi og meiri tækni en áður. Virknin er einnig betri í innanrýminu en áður. Til dæmis með hugvitssamlegu og einingaskiptu geymslukerfi og lyklalausu aðgengi.

Stjórnrýmið, sem er með afar góðu útsýni til allra átta, er ætlað að gera hversdag bílstjórans eins þægilegan og mögulegt er. Þannig eru í boði fimm mismunandi gerðir sæta fyrir ökumann þar sem hægt er að uppfylla mismunandi kröfur sem gerðar eru til þæginda.

Nútímalegt mæla- og stjórnkerfi skarar fram úr að því leyti að snjallsímar eru samþættir og valkvæðu margmiðlunarkerfinu er stjórnað með snertiskjá og aðgerðastýri.

Gott aðgengi er að öllum stjórn- og mælabúnaði

Einingaskipt geymslukerfið heldur góðu skipulagi í ökumannsrýminu með aðgengilegum hirslum og með hlíf sé þess óskað. Tækninni hefur fleygt fram og það sést vel í þessum bíl. Til að gera vinnuna eins hagkvæma og þægilega og mögulegt er má fá mismunandi útvarpstæki, margmiðlunarkerfi og tengjanleikalausnir fyrir Sprinter.

Allt eftir þörfum má velja úr festingu fyrir farsíma, útvarpi með Bluetooth®-tengi og handfrjálsum búnaði, margmiðlunarkerfi með snertiskjá í hárri upplausn, hraðvirku leiðsögukerfi með hörðum diski með þrívíddarframsetningu á kortum og samþættingu við snjallsíma.

Stjórnunin er einföld og þægileg. Til dæmis er hægt að stjórna margmiðlunarkerfunum með snertiskjánum eða með snertihnappinum á aðgerðastýrinu. Gott aðgengi er að öllum stjórn- og mælabúnaði og þægilegt að lesa á hann.

Öryggisbúnaður Sprinter hefur verið aukinn til muna frá fyrri gerð og er m.a. fáanlegur með 360° myndavél. Olíumiðstöðin er með tímstilli og fjarstýringu.

Eins og að aka lúxusjeppa

Sprinter er afar góður í akstri og manni líður frekar eins maður sé að keyra lúxusjeppa en sendibíl. Reynsluaskstursbíllinn er lágþekju sendibíll af lengri gerðinni. Hann er með 2,2 lítra dísilvél sem skilar 143 hestöflum og 330 Nm í togi.

Vélin skilar prýðilegu afli fyrir svo stóran bíl. Vélin er frekar eyðslugrönn og eyðslan í blönduðum akstri er frá 9,3 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri. CO2 losunin er 214 g/km. Bíllinn er með 9 gíra sjálfskiptingu sem er mjög þýð.

Sprinter er með upphækkaðri fjöðrun fyrir íslenskar aðstæður. Sprinter er nú í boði með framhjóladrifi í fyrsta skipti og sömuleiðis með leyfða heildarþyngd að 5,5 tonnum. Með framdrifinu býðst aukin hleðslugetu og hleðslukanturinn er lægri í samanburði við bíla með afturdrifi. Bílstjórasætið er sérlega þægilegt og fjaðrandi með mjóbakstuðningi og hita.

Mjög fjölbreyttur sendibíll

Sprinter sendibíll er mjög fjölbreyttur og fæst í fjórum mismunandi lengdum, þrenns konar hæðum þaks og hleðslurými allt að 17 rúmmetrar. Sendibíllinn hentar því fullkomlega í alla þá flutninga sem þörf er á.

Fjölmargar útgáfur hans og útbúnaður bjóða upp á hagkvæma bíla í grunnútgáfu sem og bíla sem eru hlaðnir aukabúnaði. Sem sendibíll hentar hann mjög vel í vinnunni eða sem fólksbíll með smekklegri innréttingu í farþegarýminu.

Hægt er að laga hleðslurýmið í sendibílnum að þörfum hvers og eins, til dæmis með festingu fyrir farangur í lofti, gólfi úr léttu plasti og hjólaskálum sem hlaða má upp á.

Valkvæður stuðningur við vörubretti í stigþrepi rennihurðarinnar heldur farminum stöðugum, t.d. þegar mikið er um beygjur á leiðinni, og er farmurinn þannig betur festur. Í farmrýminu er rakaþolin plastklæðning í hliðum og krossviður í gólfi. Auk þess er LED lýsing í farmrýminu.

Þil með glugga er á milli farþega- og farmrýmis. Afturhurðir bílsins er án glers og með 270° opnun. Rennihurð er eingungis á vinstri hlið bílsins.

Framdrifið skilar aukalegu hleðslurými

Hámarkshleðsla í þyngdarútgáfunni með 5.500 kg er 3.144 kg. Bílar með framdrifi sanna gildi sitt með aukalegu hleðslurými og 80 mm lægra hleðslugólfi í samanburði við bíla með afturdrif.

Þar að auki hafa þeir 50 kg meiri burðargetu en afturdrifnu bílarnir í síðustu framleiðslugerð. Fjölmargar sniðugar lausnir bæta og auðvelda notkun stórs hleðslurýmisins.

Sem fólksflutnignabíll rúmar Sprinter allt að 9 farþega í millilengd og allt að 21 farþega sem rútubíll. Sem fólksflutningabíll er Sprinter ekki fáanlegur með framhjóladrifi.

Fyrsti atvinnubíllinn sem fékk sjálfstætt nafn

Sprinter er flaggskip ört stækkandi sendibílaflota Mercedes-Benz. Þegar Sprinter kom fyrst á markað var hann frumkvöðull í flokki atvinnubíla Mercedes-Benz.

Hann var fyrsti atvinnubíllinn frá bílaframleiðandanum sem fékk sjálfstætt nafn en áður höfðu módelin einungis borið tölustafi. Fyrsta árið framleiddi verksmiðja Mercedes-Benz í Dusseldorf meira en hundrað þúsund Sprinter bíla.

Nú 25 árum eftir að sendibíllinn kom fyrst af færibandinu í verksmiðjunni eru yfir 30 milljón Sprinter bílar á götunum í yfir 130 löndum. Sprinter er vinsæll atvinnubíll og ekki að ástæðulausu.

Hann er traustur, með mjög góða aksturseiginleika, aflmiklar og eyðslugrannar vélar. Verð á Sprinter sem reynsluekið er hér er 7.690.000 kr. án vsk en verðlistaverð á bílnum frá kr. 6.766.000 kr. án vsk.

Greinin birtist í blaðinu Atvinnubílablaðið sem fylgdi Viðskiptablaðinu fyrr í mánuðinum.

Stikkorð: Sprinter  • Mercedes-Benz