*

Hitt og þetta 3. janúar 2019

Seðlabanki auglýsir með söng og dansi

Á samfélagsmiðlinum Twitter auglýsir Seðlabanki Jamaíka nauðsyn lágrar verðbólgu með tónlist og flottum bílum.

Inn á milli hefðbundinna tilkynninga um stýrivexti, gjaldeyrisviðskipti og mannaráðningar á því sem virðist vera opinber twitter síða Seðlabanka Jamaíka er töluvert af dansi og gleði sem kannski ekki megi venjast frá sams konar stofnunum í öðrum löndum.

Fyrir utan að birta jólasöngva úr kirkjum, líklega með starfsmönnum stofnunarinnar, og dansi á hádegistónleikum í matsalnum, virðist stofnunin hafa tekið upp á því að vera með stuttar auglýsingar og myndbönd til að auglýsa nauðsyn verðbólgumarkmiða.

Nýjasta auglýsingin virðist gera góðlátlegt grín að bílaauglýsingum, þar sem forláta blár sportbíll er keyrður um götur Kingston höfuðborgar Jamaíka undir söng og slagorðum um fyrirsjáanleika, stöðugleika, og lágri verðbólgu sem geti örvað hagkerfið og leyft neytendum að kaupa meira fyrir fjármagn sitt.

 

 

Mögulega tengist almannatengslaherferðin tísti á síðunni frá 30. október, þar sem sagt er frá því að fyrr í mánuðinum hefðu stjórnvöld í landinu lagt fram frumvarp sem myndi gera seðlabankann þann fyrsta í enskumælandi löndum karabíska hafsins til að vera sjálfstæður frá stjórnvöldum og með áherslu á að ná verðbólgumarkmiðum.

Einnig birtir bankinn teikningar af verðbólgudraugnum sem þar tekur þó mynd skrímslis sem hafi skaðað Jamaíka illa. „Við verðum að vinna að því að halda því föstu í fortíðinni og ekki taka sem gefnu að við getum verið með þá lágu, stöðugu og fyrirsjáanlegu verðbólgu sem við njótum í dag,“ segir þar jafnan.

 

 

Einnig er önnur sem vísar í Gullbrá þar sem þrír grautar eru í boði, einn er með of mikilli verðbólgu, annar of lítilli og svo einn á milli með lágri og stöðugri verðbólgu, sem Gullbrá nýtur og segir vera akkúrat réttan.

 

 

Annað skemmtilegt þema er vísun í tónlistarmenningu þjóðarinnar, bæði í veggspjöldum og söngbrotum þar sem segir að eins og Reggae tónlist sé hjartsláttur landsins þá sé lág og stöðug verðbólga hjartsláttur hagkerfisins. Hún er einnig sögð vera jafnmikilvæg efnahagslífinu og bassalínan í Raggae tónlist.

 

 

 

 

Stikkorð: Seðlabanki  • verðbólgumarkmið  • Kingston  • Jamaíka