*

Tölvur & tækni 27. febrúar 2013

Segir Apple vilja fá einkaleyfi á fegurð

Lögmaður Samsung í Ástralíu segir að snertihreyfingar, sem Apple segist hafa einkaleyfi á, séu frekar list en uppfinning.

Það fer að æra óstöðugan að fjalla meira um endalausar deilur snjallsímaframleiðendanna Apple og Samsung um hver hafi brotið höfundarrétt hvers, hvar og hvernig. Í málflutningi fyrir dómstóli í Ástralíu kom þó upp áhugaverður punktur í dómsmáli milli fyrirtækjanna tveggja.

Eins og í fleiri málum vill Apple meina að notkun Samsung á ákveðnum snertihreyfingum á snjallsíma sé brot á einkaleyfi Apple. Á það til dæmis um hreyfinguna að hreyfa fingur til hliðar til að aflæsa símanum og „klípa“ saman fingrum á skjánum til að stækka eða minnka myndir á skjánum.

Lögmaður Samsung, Richard Coben, segir að þarna sé um að ræða samspil manneskju og vélar og ekki sé hægt að fá einkaleyfi á slíku samspili. Í raun megi lesa það úr einkaleyfisumsókn Apple og málflutningi fyrirtækisins að það sem réttlæti einkaleyfið sé glæsileiki og fegurð hreyfinganna. „Einkaleyfi eru ekki veitt vegna þess að eitthvað er fallegt eða glæsilegt. Fegurð hlutar eða virkni er huglæg.“

Í raun megi líkja hreyfingunum og samspilinu við listaverk og því sé ekki hægt að fá einkaleyfi á þeim.

Stikkorð: Apple  • Samsung  • Einkaleyfi