
Hagfræðingurinn Eiríkur Ragnarsson, einnig þekktur sem Eikonomics, segir að íslenska þjóðin geti hætt að láta sér dreyma um að Ísland sigri Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í grein í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Með greininni fylgir graf sem sýnir samband getspár fjárhættuspilara og endanlega útkomu í söngvakeppninni á árunum 2015-2019. Í greininni fer Eiríkur yfir að grafið segi til um að markaður sem aðeins sé samansettur af fjárhættuspilurum sé mjög góður í að spá fyrir um hvaða þrjú lög séu líklegust til að vinna keppnina. Aftur á móti sé þessi markaður ekkert sérstaklega góður í að spá nákvæmlega hvert þessara þriggja laga vinnur.
Sjá einnig: Hrunið, landi og kvikmyndagerð
„Á árunum 2015-2019 lentu til að mynda aldrei lögin sem fjárhættuspilarar höfðu spáð fyrsta eða öðru sæti neðar enn í þriðja sæti, en lagið sem vann hafði jafn oft verið spáð fyrst og öðru sæti af markaðnum,“ segir í grein Eiríks. Þá sýni grafið einnig að markaðurinn sé mjög lélegur í að spá nákvæmlega fyrir um sætaröðina.
Þegar veðbankar séu skoðaðir sé stuðullinn á sigur Daða og Gagnamagnsins 13, sem gefi til kynna að sigurlíkurnar séu um 6%. Samkvæmt sínum gögnum hafi það ekki gerst áður að lag utan fyrstu þriggja sæta meðal veðbanka hafi landað sigri í söngvakeppninni.
„Sem þýðir að við getum hætt að láta okkur dreyma og notið þess að horfa á keppnina vitandi það að Daði á ekki séns,“ segir í lokaorðum greinarinnar.