*

Veiði 21. október 2012

Segja sveitastjórn sýna almenningi hroka

Skotvís mótmælir ákvörðun sveitastjórnar Húnaþings vestra um að leggja bann við rjúpnaveiðum nema gegn greiðslu.

Skotveiðifélags Íslands (Skotvís) hefur mótmælt harðlega ákvörðun sveitarstjórnar Húnaþings vestra um að leggja bann við rjúpnaveiðum á ákveðnum svæðum sveitarfélagsins nema gegn greiðslu fyrir hverja byssu fyrir hvern dag.

Þetta kemur fram á vef Skotvís í dag en þar segir að þessi árlega tilkynning sveitarfélagsins tengist úrskurðarmáli sem brátt verður tekið fyrir af óbyggðanefnd.

„... sveitarstjórn sýnir almenningi mikinn hroka með því að skapa óvissu meðal veiðimanna um réttarstöðu þeirra með þessum hætti,“ segir á vef Skotvís.

Svæðið sem um ræðir er annarsvegar Víðidalstunguheiði ásamt Króki, Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og Öxnatungu, og hinsvegar Arnarvatnsheiði og Tvídægra (sem nær niður í Borgarbyggð).

„Framanaf hafði sveitarfélagið einnig brotið jafnræðisreglu stjórnsýslulaga með því að mismuna Íslendingum í gjaldtöku eftir búsetu. Sveitarstjórn virðist þó hafa lýst sig sammála áliti Skotvís í þessum lið og viðurkennt brot sitt hvað þetta varðar, sem undirstrikar nauðsyn þess að sýna stjórnvöldum og opinberum stofnunum stjórnsýslulegt aðhald,“ segir á vef Skotvís.

„Það sem gerir aðgerð Húnaþings vestra einstaklega óskammfeilna gagnvart almenningi þetta árið, er að nú hefur ríkið einnig gert kröfu á þetta sama landsvæði sem jafnframt eykur réttaróvissuna og breytir réttarstöðu skotveiðimanna meðan málið er tekið fyrir af óbyggðanefnd. Skotvís fór fram á það við sveitarstjórn í lok árs 2010 að sýnt yrði fram á lögleg landamerki til að gefa því kost á að sýna með óyggjandi hætti hver eignarrétturinn væri. Í opinberum svörum sveitarstjórnar og sveitarstjóra kemur skýrt fram að þessi landamerki eru ekki aðgengileg og verið er að leita dyrum og dyngjum að sönnunargögnum svo hægt sé að leggja þau fram í dóm óbyggðanefndar í byrjun næsta árs. Því lítur Skotvís svo á að veiðar séu heimilar á þessu svæði, með vísan í 8.gr laga um verndun, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum...“

Sjá nánar á vef Skotvís.