*

Menning & listir 7. desember 2020

Segja uppistand Ara ekki það síðasta

Gagnrýni Guardian á Netflix uppistand Ara Eldjárns notar víkingatilvísanir en þykir vísun í skipulagða Breta klisjukennd.

Frumsýning á uppistandi Ara Eldjárns, Pardon My Icelandic, á Netflix virðist að mestu fara vel í gagnrýnanda breska blaðsins Guardian, en þar segir að þó þetta sé fyrsta íslenska uppistandið verði það hvorki það síðasta, né í tilviki Ara Eldjárns sjálfs, hans síðasta sem sýnt verði á Netflix.

Gagnrýnin segir að efni brandaranna sé þó ekki mjög nýstárlegt, en það sem hitti í mark sé stuttur og skorinorður frásagnarbragur Ara, sem einkennist af undirförlu bliki á sakleysislegu yfirbragði hans.

Uppistandið er sagt einkennast af sjálfsöruggi og sé hrífandi, og jafnframt sé það hressandi að horfa á þátt sem geri ráð fyrir skilningi áhorfenda á mörgum tungumálum, eða í það minnsta áhuga á að leika sér með tungumál.

Bretarnir sleppa því þó ekki að koma með klisjukennda samlíkingu við víkingabakgrunn Íslendinga með tilvísunum um árásir og rán á eiginkonum, á sama tíma og gagnrýnandanum þykir klisjan um skipulagða Breta vandræðaleg.

Gagnrýnandinn segir jafnframt það sérstæðan sölupunkt að vera Íslendingur sem Ara takist vel að selja, með því að gera grín að íslenska þjóðsöngnum, sigri landsliðsins á því enska, íslenskum glæpaþáttum sem og kynning á skandinavískum húmor um Dani, Færeyinga og Finna.

Þrátt fyrir að vera að mestu leyti jákvæður þykir gagnrýnandanum brandari Ara, um að norrænu þjóðirnar hagi sér eins og þær austur evrópsku í Eurovision stigagjöf, heldur endasleppur.

Stikkorð: Ari Eldjárn  • Guardian  • uppistand