*

Hitt og þetta 1. júlí 2013

Sektir eða fangelsi fyrir að heimsækja ekki foreldra

Nú má sekta og jafnvel fangelsa fólk í Kína sem heimsækir ekki aldraða foreldra sína samkvæmt nýjum lögum.

Uppkomin börn verða að heimsækja foreldra sína samkvæmt nýjum lögum sem sett voru í Kína á mánudaginn. Geri fólk það ekki þarf það að borga sekt eða jafnvel fara í fangelsi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC í dag

Lögin heita „Elderly Rights Law“ og eiga að sporna við vanrækslu á eldri borgurum í landinu. Í lögunum stendur að fólk eigi að huga að andlegri heilsu foreldra sinna og vanrækja þau ekki.

Lögin hafa vakið upp hörð viðbrögð og hafa tugir þúsunda kínverskra netnotenda gert grín að þeim. Margir spyrja sig hvernig eigi að framfylgja lögunum þar sem hvergi kemur fram hversu oft eigi að heimsækja foreldrana og hve lengi. Einnig veltir fólk því fyrir sér hvernig þeir, sem búa fjarri foreldrunum, eigi að fara að og hvort vinnuveitendum beri þá skylda að veita þeim leyfi frá störfum á meðan á heimsóknum stendur.

Yfirvöld hafa vaxandi áhyggjur af líðan eldri borgara í landinu. Samkvæmt tölum frá kínverskum stjórnvöldum voru yfir 178 milljónir manna í Kína yfir sextugu árið 2010 og búist er við því að sú tala tvöfaldist árið 2030. 

Stikkorð: Kína  • Eldri borgarar  • Kína