*

Sport & peningar 2. júní 2020

Seldist upp í utanvegahlaup

Mótaröðin Víkingar í hjólreiðum og utanvegahlaupum fer fram í fyrsta sinn í sumar.

Um 600 keppendur eru skráðir í utanvegahlaupið Hengil Ultra sem fer fram næsta laugardag, 6. júní, í Hveragerði. Þetta er í tíunda sinn sem mótið er haldið en það seldist upp fyrir rúmlega mánuði síðan og eru um 150 er skráðir á biðlista. 

Hengill Ultra er eina hlaupið á Íslandi sem býður keppendum 100km braut en það er um leið lengsta utanvegahlaup á Íslandi. Keppendur geta valið fimm mismunandi vegalengdir og þannig eru fremstu hlauparar landsins að hlaupa á sama stað og byrjendur og nýliðar í sportinu. Keppninni lýkur svo með grillveislu í miðbæ Hveragerðis. 

Hengill Ultra er hluti af mótaröðinni Víkingar sem fram í fyrsta sinn í sumar. Mótaröðin samanstendur af fjórum almenningsíþróttakeppnum í hjólreiðum og utanvegahlaupum. 

Skipuleggjendur mótaraðarinnar hafa staðið frammi fyrir óvissu sem nú virðist vera að létta. „Þetta er búið að vera í nokkuð óljósri stöðu frá því í byrjun mars og allan apríl. En framundan eru bjartir tímar. Með samfélagssáttmála Víðis og þríeykisins að leiðarljósi sjáum við fram á það að keppnirnar geti allar farið fram án þess að brotið verði gegn reglum og leiðbeiningum,“ segir Þórir Erlingsson, einn af forsvarsmönnum mótaraðarinnar í fréttatilkynningu.

„Þessi hópur sem stendur að mótunum hefur langa og mikla reynslu af skipulagi viðburða og öryggismálum. Við teiknuðum strax upp smávægilegar breytingar á ræsingarfyrirkomulagi keppnanna og gerðum breytingar á lokaathöfnum mótanna. Áætlanir gera nú ráð fyrir að ekki verði stór lokahátíð á fyrstu mótunum heldur nokkrar smærri. Þá er boðið upp á ræsingar í allri mótaröðinni þannig að engin þurfi að vera nær öðrum þátttakanda en tveimur metrum,“ bætir Þórir við.   

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) er samstarfsaðili mótaraðarinnar í ár og mun halda utan um árangur þeirra sem taka þátt í öllum mótum sumarsins. Þeir þátttakendur sem ná þeim áfanga fá verðlaun í lok sumars. Ásamt Hengil Ultra samanstendur mótaröðin af götuhjólareiðamótinu KIA Gullhringurinn, fjallahjólakeppninni Landsnet32 og utanvegahlaupinu Eldslóðin. 

KIA Gullhringurinn
Hjólreiðakeppnin KIA Gullhringurinn fer svo fram í níunda skiptið á Laugarvatni laugardaginn 11. júlí. KIA Gullhringurinn er vinsælasta götuhjólreiðamót sumarsins þar sem allt besta hjólreiðafólk landsins keppir á sama tíma og byrjendur og bröltarar í sportinu eru velkomnir og hjóla þá vegalengd sem þeim hentar. Boðið er upp á þrjár vegalengdir en þátttakendur eru ræstir frá Laugarvatni á sama tíma og síðan er grillveisla fyrir keppendur og allir hella sér í Fontana-böðin á eftir. 

Landsnet32
Þriðja þrautin í mótaröðinni er fjallahjólakeppnin Landsnet32. Þetta er ný keppni sem verður haldin í upplandi Garðabæjar og Kópavogs þann 15. ágúst næstkomandi. Keppt er í einum hring og er boðið upp á rafmagnshjólaflokk í þeirri vegalengd sem er nýmæli og svo er boðið upp á 66 km útgáfu sem eru fjórir hringir. Í báðum vegalengdum er boðið upp á liðakeppni. 

Eldslóðin
Mótaröðinni lýkur í Heiðmerkurlandinu þar sem utanvegahlaupið Eldslóðin verður haldið í fyrsta sinn laugardaginn 5. september 2020. Hlaupið er frá Vífilstöðum meðfram Vífilstaðavatni inn að Búrfellsgjá, í kringum Helgafellið og til baka. Eldslóðin er 28km en einnig eru í boði vegalengdirnar 5km og 10km. Þá er einnig boðið upp á liðakeppni í 28km vegalengdinni. 

Mótaröðin Víkingar: Almenningsíþróttamót þar sem allir keppa og allir vinna.
5.-6. júní: Salomon Hengill Ultra - UPPSELT.
11. júlí: KIA Gullhringurinn - Skráning í fullum gangi.
15. ágúst: Landsnet 32 - Skráning í fullum gangi.
5. september: Eldslóðin - Skráning í fullum gangi.

Skráning fer fram á www.netskraning.is/vikingar.