*

Veiði 3. mars 2018

Seldu veiðileyfi fyrir 363 milljónir

Rekstur SVFR hefur batnað til muna á síðustu árum, skuldir hafa lækkað og eigið fé er orðið jákvætt á nýjan leik.

Trausti Hafliðason

Stangaveiðifélag Reykjavíkur  (SVFR) skilaði 13,2 milljóna króna hagnaði á rekstrarárinu 2017. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi félagsins sem sýnir að heldur er að rofað til í rekstri þess. Á reikningsárinu 2016 nam hagnaðurinn 9,7 milljónum og árið 2015 var félagið með neikvæða afkomu upp á 4 milljónir króna. Taka ber fram að reikningsár félagsins er frá 1. nóvember til 31. október.

Rekstrartekjurnar hafa aukist jafnt og þétt frá árinu 2014. Á síðasta reikningsári námu þær 385,3 milljónum króna en til samanburðar námu þær 329,9 milljónum árið 2014. Tekjurnar hafa því aukist um tæp 17% á þessu tímabili. Árið 2013 var félagið hins vegar með rekstrartekjur upp á 467,8 milljónir króna en hafa ber í huga að þá var félagið með töluvert fleiri ársvæði á sínum snærum, sem þýðir að tekjur af veiðileyfasölu voru meiri. Til dæmis var félagið þá með Norðurá á leigu.

Tekjur af félagsgjöldum lækka

Stangaveiðifélagið er með yfir 20 ársvæði á sínum snærum og í félaginu eru tæplega 2.500 manns. Þekktustu veiðisvæði Stangaveiðifélagsins eru laxveiðiárnar Langá á Mýrum, Hítará, Haukadalsá og Elliðaárnar sem og silungsveiðisvæðin í Laxá í Laxárdal og Laxá í Mývatnssveit. Þess má geta að fyrir áramót gekk félagið frá fimm ára leigusamningi á Straumfjarðará í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi.

Eins og gefur að skilja er stærsti tekjuliður Stangaveiðifélagsins sala á veiðileyfum. Í fyrra námu tekjur af sölu leyfa og þóknun fyrir aðstöðu 363,1 milljón króna. Árið 2016 námu þessar tekjur 356 milljónum og árið 2015 námu þær 308,9 milljónum.

Tekjur af félags- og inntökugjöldum námu 19,3 milljónum króna í fyrra samanborið við 20,2 milljónir árið 2016. Þessar tekjur hafa minnkað töluvert síðustu ár. Til samanburðar námu þær 24,7 milljónum króna árið 2014. Ari Hermóður Jafetsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segir að ekki sé alveg hægt að tengja þessa þróun beint við fækkun félaga.

„Þetta er ekki eins einfalt og margir halda kannski," segir Ari. „Í dag tekjufærum við einungis innheimt félagsgjöld en ekki alla þá reikninga sem sendir eru út. Síðustu tvö til þrjú ár höfum við afskráð þá félaga sem ekki hafa greitt gjöldin í tvö ár. Áður fyrr var allt tekjufært en síðan þurfti að afskrá allar kröfur seinna." Nánar er rætt við Ara hér.

248 milljónir í leigu

Rekstrargjöld Stangaveiðifélagsins námu 372,2 milljónum króna samanborið við 368,3 milljónum árið 2016. Langstærsti kostnaðarliðurinn eru leigugjöld vegna ársvæða en þau námu 248,1 milljón í fyrra en 246,5 árið 2016. Næst stærsti kostnaðarliðurinn er skrifstofu- og stjórnunarkostnaður en hann nam 49,1 milljón króna í fyrra samanborið við 48,5 milljónir árið 2016.

Stærsti hluti skrifstofu- og stjórnunarkostnaðar eru laun en kostnaður vegna þeirra nam 27 milljónum í fyrra en 21,6 milljónum árið 2016. Þess ber að geta að stöðugildum fjölgaði um 0,5 á milli ára. Þau voru 3,5 í fyrra en 3,0 árið 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Stangaveiðifélaginu er skýringin á þessu meðal annars sú að nú eru einungis innheimt félagsgjöld færð til tekna. Ef félagsmaður hefur ekki greitt gjöldin í tvö ár er skráður úr félaginu. Áður fyrr var allt tekjufært.

Þegar efnahagsreikningurinn er skoðaður sést vel að Stangaveiðifélagið er að rétta úr kútnum. Skuldir félagsins hafa minnkað töluvert síðustu ár. Þær nema nú 38 milljónum króna en voru 71,6 árið 2013.

Eigið fé, eignir að frádregnum skuldum, er loks orðið jákvætt eftir að hafa verið neikvætt frá árinu 2012 til 2016. Eigið fé nemur nú 6,1 milljón króna en var neikvætt um 7,2 í fyrra.

Botninum náð árið 2013

Stangaveiðifélagið fór ansi illa út úr hruninu. Eigið fé félagsins nam ríflega 123 milljónum króna árið 2008 en aðeins fjórum árum seinna, eða árið 2012, var það orðið neikvætt um 17,3 milljónir. Verst var staðan að þessu leyti árið 2013 þegar eigið fé félagsins var neikvætt um 31,3 milljónir. Eiginfjárhlutfallið er nú loks orðið jákvætt, eða 14%. Í fyrra var eiginfjárhlutfallið neikvætt um 17% og árið 2013 var það neikvætt um 78%.

Handbært fé Stangaveiðifélagsins við lok reikningsársins þann 31. október síðastliðinn, nam tæplega 1,3 milljónum króna en var 4,2 árið á undan.

Í ársreikningnum árið 2016 var sérstaklega fjallað um rekstrarhæfi Stangaveiðifélagsins. Þar kom meðal annars fram að stjórnendur væru að vinna að endurbótum á grunnrekstri félagsins eftir sérstakri aðgerðaráætlun. Sú aðgerðaráætlun miðaði meðal annars að því að bæta innheimtu, lækka skuldir og endurskipuleggja fjármögnunarhlið félagsins. Miðað við niðurstöðuna nú virðist sem stjórnendum félagsins hafi tekist ætlunarverk sitt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.