*

Veiði 9. febrúar 2015

Selja fyrir rétt verð

Verslunin Veiðiflugur hefur verið auglýst til sölu hjá Kontakt fyrirtækjaráðgjöf.

Trausti Hafliðason

Hjónin Hilmar Hansson og Oddný Magnadóttir hafa rekið veiðiverslunina Veiðiflugur í sex ár. Nú er komið að tímamótum hjá þeim því þau hafa hug á að selja verslunina.

„Við seljum ef við fáum rétt verð,“ segir Hilmar í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segist ekki tilbúinn að segja hvað rétt verð sé.

„Veiðiflugur byrjaði sem netverslun árið 2009,“ segir Hilmar. „Þetta átti bara að vera vefsíða sem seldi flugur. Síðan verslaði bara enginn á netinu heldur mætti fólk bara heim til okkar. Það var stöðugur straumur af fólki þannig að við færðum þetta út í bílskúr hjá okkur. Það dugði ekki til því þetta sprengdi allt utan af sér.

Árið 2011 ákváðum við því að leigja húsnæði við Langholtsveg undir verslunina og síðan keyptum við það. Í dag er þetta orðið alvöru fyrirtæki með töluvert mikla veltu og einkaumboð fyrir mörg af stóru merkjunum í veiðiheiminum eins og til dæmis Loop, Guideline og Patagonia.“

Kontakt fyrirtækjaráðgjöf er með Veiðiflugur til sölu. Á vef Kontakt kemur fram að veiðiverslunin sé með ársveltu upp á 80 milljónir króna. Verslunin er til húsa að Langholtsvegi 111 og er húsnæðið í eigu Hilmars eins og áður sagði. Hann segist vera að selja reksturinn en ef áhugi sé fyrir því að kaupa húsnæðið einnig sé hann alveg til tals um það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.