*

Sport & peningar 17. nóvember 2013

Selja hlutabréf í leikmönnum

Fantex-sjóðurinn hefur þegar samið við tvo leikmenn NFL um hlutafjárútboð í þá sjálfa.

Ef tækifærið hefði verið til staðar, hefðir þú þá keypt hlutabréf í Michael Jordan árið 1984? Eða hlutabréf tengd gengi Davids Beckham á tíunda áratugnum? Hvað með hlutabréf í Brett Favre, einum sigursælasta leikmanni í sögu ameríska fótboltans?

Fram til þessa hefur verið ómögulegt fyrir fjárfesta að taka stöðu í fjárhagslegri velgengni íþróttamanna, sem aftur helst í hendur við velgengni þeirra innan vallar. Þessu hyggst bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Fantex Holding breyta. „Þessi viðskipti fara fram á grasþökum og harðviðargólfi,“ er slagorð Fantex. Stutt er síðan sjóðurinn kom fram á sjónarsviðið en hann hefur þegar samið við tvo leikmenn í NFL-deildinni í amerískum fótbolta. Í tilviki annars þeirra, Vernons Davis hjá San Francisco 49ers, kaupir Fantex alls 10% af framtíðartekjum leikmannsins. Samningurinn er ekki að fullu frágenginn en ef viðskiptin ganga í gegn mun David fá 4 milljónir dollara í hendurnar strax í skiptum fyrir tíund af framtíðartekjum. Það er jafnvirði um 500 milljóna króna. Til stendur að afla milljónanna með almennu hlutafjárútboði sem Fantex heldur.

Hlutabréf í einstaklingi
Í sinni einföldustu mynd gefst fjárfestum með þessu tækifæri á að kaupa hlut í íþróttamanni. Gengi hlutabréfanna endurspeglar tekjur hans, eða öllu heldur trú fjárfesta á hverjar tekjur hans verða í framtíðinni. Verður ferill hans farsæll með tilheyrandi launahækkunum og auglýsingasamningum við stórfyrirtæki? Eða meiðist leikmaðurinn svo illa í næsta leik að ferill hans er á enda? Fyrir leikmenn getur þessi samningur verið freistandi. Í skiptum fyrir hluta framtíðartekna, sama hverjar þær verða, fær leikmaðurinn peninga strax í dag. Frá sjónarhóli leikmannsins má því líta á samninginn sem vörn gegn áföllum eða niðursveiflum sem gjarnan fylgja atvinnumannaíþróttum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Fantex