*

Hitt og þetta 16. nóvember 2005

Seltjarnarnes semur við World Class

Bæjarstjórn Seltjarnarnes samþykkti á dögunum samhljóða að leita samninga við Þrek ehf.um rekstur og uppbyggingu heilsuræktar í tengslum við Sundlaug Seltjarnarness. Eins og kunnugt er rekur fyrirtækið World Class líkamsræktarstöðvarnar á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, þar með talið Laugar í Reykjavík, en markmiðið er að stöðin á Seltjarnarnesi verði byggð á svipuðum forsendum. Starfshópur sem stofnaður var til að vinna að málinu skilaði samhljóða niðurstöðu um að hann teldi Þrek ehf hæfastan meðal umsækjenda og ríkti einhugur um þá niðurstöðu í hópnum.

Að sögn Björns Leifssonar er hönnun, undirbúningur og samningaviðræður að hefjast. ?Við erum mjög ánægð með að fá að takast á við þetta verkefni og útvíkka þar með starfsemi okkar enn frekar. Kort iðkenda hjá World Class ganga á milli allra stöðva okkar þannig að viðskiptavinir World Class á Seltjarnarnesi munu geta stundað líkamsrækt í nágrenni heimilis síns eða vinnustaðar á Seltjarnarnesi, Laugum, Spönginni eða í húsi Orkuveitunnar. Ef allt gengur að óskum munum við að líkindum opna nýja heilsuræktarstöð á Seltjarnarnesi næsta haust,? segir Björn.