*

Bílar 24. desember 2016

Sendibílar langvinsælastir

Mikil aukning hefur verið í nýskráningum atvinnubíla hér á landi á fyrstu 10 mánuðum ársins.

Róbert Róbertsson

Langflestar nýskráningar atvinnubíla eru sendibifreiðar undir 5 tonnum eða alls 2.164 bílar. Tengist þessi fjölgun augljóslega auknum fjölda ferðamanna til landsins. Flestir sendibílarnir eru samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins innréttaðir sem fólksflutningabílar og notaðir í akstur á ferðamönnum um landið. Aðeins tveir sendibílar frá 5 tonnum til 12 tonna voru nýskráðir fyrstu 10 mánuðina. Á síðasta ári voru alls 1.744 nýir sendibílar skráðir þannig að um er að ræða talsverða aukningu á nýjum sendibílum á markaðnum á árinu.

Aukning í öðrum flokkum

Alls 369 hópbifreiðar voru nýskráðar á fyrstu 10 mánuðum ársins. Rúmlega helmingur þeirra er undir 5 tonnum eða alls 250 bílar. 113 bílar eru frá 5-12 og aðeins sex meira en 12 tonn. Því er ljóst að aukning ferðamanna hefur áfram mikil áhrif á atvinnubílaflóruna. Á síðasta ári voru 188 nýir hópferðabílar skráðir sem sýnir að um helmingsfjölgun á sér stað á þessu ári í þessum flokki atvinnubíla.

Nánar er fjallað um málið í Atvinnubílar sem er fylgirit Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.