*

Bílar 30. janúar 2015

Senuþjófur í Detroit

Ford frumsýndi nýjan Mustang á bílasýningunni í Detroit. Bíllinn var senuþjófur sýningarinnar.

Róbert Róbertsson

Ford var mjög áberandi á bílasýningunni í Detroit sem lauk á dögunum. Þessi gamalgróni bílaframleiðandi kom m.a. fram með spennandi sportbíl Ford Shelby GT350R Mustang sem vakti mjög mikla atygli á sýningunni og var eiginlega senuþjófurinn í Detroit.

Ford Shelby GT350R Mustang var frumsýndur þar með viðhöfn og eflaust hafa margir verið hrifnir af kraftalegu útliti og ekki síður öflugu vopnabúri bílsins en undir húddinu er 5,2 lítra V8 vél sem skilar alls 500 hestöflum og hámarkstogið er 400 Nm. Bíllinn er aðeins 4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 300 km/klst.

Felgurnar eru úr koltrefjum og er þetta í fyrsta skipti sem slíkt verður að veruleika á bíl sem fer í fjöldaframleiðslu. Koltrefjafelgurnar eru um 6 kílóum léttari hver um sig en hefðbundnar álfelgur og hjálpa til að létta bílinn og gera hann hraðskreiðari, eyðslugrennri og umhverfismildari.

Stikkorð: Ford Mustang