*

Heilsa 17. apríl 2013

Sérstök æfingavél fyrir ökuþóra

Ökuþórarnir Fernando Alonso og Felipe Massa nota sérstaka æfingavél til að styrkja vöðvana.

Ökuþórar sem taka þátt í Formúlu 1 keppnunum þurfa að vera í fantagóðu líkamlegu formi, þótt það komi ef til vill þeim á óvart sem ekki þekkja til íþróttarinnar. Það sama á við um marga aðra sem keppa í akstursíþróttum. Skarpar beygjur á miklum hraða leggja gríðarlega mikið álag á háls ökumannsins og þá þurfa þeir að vera með mjög sterkar hendur og handleggi til að hafa fulla stjórn á bílnum.

Ökuþórarnir Fernando Alonso og Felipe Massa eru duglegir í ræktinni eins og kollegar þeirra en njóta þess þó að geta notað sérstaka æfingavél sem hönnuð er fyrir akstursíþróttamenn. Tækið, sem framleitt er af Technogym, líkir eftir upplifun ökumannsins í kappakstri. Hjálmur, sem tengdur er við lóð, styrkja hálsvöðvana á meðan stýri styrkir handleggina. Hægt er að tengja allt að 25 kílóa lóð við stýrið og þá titrar það til að líkja sem best eftir aðstæðum á brautinni.

Vegna þess hve sérstakt tækið er þá stendur almenningi ekki til boða að festa kaup á því.

Stikkorð: Formúla 1  • Líkamsrækt